Efling stéttarfélag

„Þegar ég byrjaði að keyra þá fékk engin bílstjóri greitt fyrir rauðu dagana“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Það er skondin tilviljun af hverju ég er strætóbílstjóri. Ég hafði búið hérna í nokkur ár og unnið við ræstingar þegar ég og bróðir minn fórum í útilegu í óveðri og hellidembu þannig að það var engin leið að tjalda og við gistum í litla bílnum mínum um nóttina. Eftir útileguna, og eftir að við komum í bæinn fórum við í Vöku að skoða bíla og sáum strætó og fengum þessa fínu hugmynd að næst færum við í ferðalag í strætó. Tveim vikum síðar skráði ég mig í meirapróf og fékk í framhaldinu vinnu sem strætóbílstjóri og hef keyrt í fimm ár.

Mér hefur boðist að keyra túrista þar sem kaupið er örlítið betra og vinnan þægilegri. Í þannig túrum er fararstjóri sem hugsar um farþegana og þar að auki lengri kaffi og matarhlé og jafnvel gefins matur. Í strætó hjá mér er ég ein og fólk hefur óheftan aðgang að mér, það getur verið hættulegt eins og í morgun þegar inn komu fimm túristar allir með símann sinn á lofti og vildu fá útskýringar á kortinu um staði í Reykjavík og ég var sjálf keyrandi.

En ég vil halda áfram að keyra strætó og ég vill ekki yfirgefa starfsfélaga mína. Í augnablikinu erum við í miðri baráttu við fyrirtækið okkar sem vill breyta vöktunum sér í hag en kemur illa út fyrir okkur bílstjórana. Þegar þetta kom til tals, breytingin á vaktarplaninu, fékk einn vinnufélagi minn þá hugmynd að við skrifuðum saman bréf til stjórnar fyrirtækisins, annar félagi tók að sér að skrifa bréfið og sá þriðji leiðrétti og fjórði prentaði það út, sem sagt allir gerðu eitthvað. Við komum mótmælum okkar áleiðis og fyrirtækið hefur frestað þessum vaktarbreytingum í bili, það var sigur.

Reynslan hefur sýnt okkur bílstjórunum að við þurfum sífellt að vera vakandi yfir tímunum okkar og fylgjast með aurunum að það sé ekki verið að plokka eitthvað af okkur. Þegar ég byrjaði að keyra þá fékk engin bílstjóri greitt fyrir rauðu dagana. Í átján mánuði stóð ég í baráttu til þess að fá þetta endurskoðað og alltaf fengum við misvísandi upplýsingar hjá Eflingu og það var ekki fyrr en einn starfsmaðurinn þar lagðist alvarlega yfir málið og sá að rétturinn var allur okkar megin. Þegar þær niðurstöður lágu fyrir þurfti fyrirtækið að borga öllum þrjú ár aftur í tímann. Bílstjórarnir urðu órólegir yfir því að ég yrði rekin fyrir að ganga í málið og til þess að vernda mig var ég gerð að trúnaðarmanni þeirra.

Rútufyrirtækið er með samning við borgina og keyrir 85 prósent af öllum strætóleiðunum og bílstjórarnir eru upp til hópa útlendingar, eða um það bil 80 prósent. Ég keyri leið 12, fjóra tíma á dag aðra vikuna, og þá byrja ég klukkan sex á morgnanna og klára tíu. Hina vikuna keyri ég frá hálf sjö til korter í sjö á kvöldin, ellefu og hálfan tíma, en eftir tólf tímana þá þarf fyrirtækið að borga auka álag. Fyrir þetta fæ ég 270 þúsund krónur greitt, en tímakaupið er 1.734 krónur brúttó og vaktaálag leggst á tímana sem eru fyrir utan átta til fimm vinnudaginn.

Við fáum borgað fyrir matarhlé sem er tvisvar sinnum þrjátíu mínútur, en það er háð leiðinni sem við keyrum og umferðinni hvenær það gefst tími til þess að taka sér hlé, en um 60 prósent bílstjóranna fá stuttar pásur og mér sýnist fyrirtækið hafa vaktirnar okkar þannig að það leitist við að komast hjá því að borga yfirvinnu. Bíllinn er til dæmis þrifin og áfylltur á miðjum degi þannig að sú vinna fari ekki fram á yfirvinnutíma eftir síðasta túr á löngu vaktinni minni. Það er ástæðan fyrir því að ég keyri strætóinn minn, leið 12 frá Skeljanesi inn í Klettagarða í hádeginu kl. 11.30, í gegnum alla umferðina til þess að þrífa og fylla á hann.

Ég á ellefu mánaða gamalt barn heima og get ekki verið frá því og unnið um helgar og ég er ekki alveg að kaupa þessa hugmynd um Ísland sem eitthvað fyrirmyndarland í jafnrétti kynjanna. Ef ég væri ein þá gæti ég ekki byrjað klukkan sex á morgnanna í vinnunni sem þýðir að það er ekki sama aðgengi fyrir bæði kynin að störfum á Íslandi. Ég var enn þá með barnið á brjósti og þegar ég byrjaði aftur eftir fæðingarorlofið að keyra, þá kom kærastinn minn með barnið til mín í vinnuna og ég reyndi að gefa því í matarhléinu, en gafst upp, af því það gekk ekki upp að gefa brjóst, fara á klósett og nærast á 24 mínútum. Barnið mitt er byrjað á ungbarna leikskóla núna en fram að því var þetta eilíft púsl, bæði pabbi minn og tengdamamma komu frá Póllandi og voru okkur innan handa um tíma.

Hingað kom ég fyrst að heimsækja pabba minn sem tók áhættuna á sínum tíma og elti ástina til Íslands. Ástin hans bjó og vann hérna en hann kom og réði sig í blaðaútburð og bar út þangað til að hann datt á svellinu og brotnaði. Það mættu fleiri salta fyrir framan húsin sín á veturna. Pabba var sagt upp í kjölfarið af slysinu og flutti aftur til Póllands en ég fann húsið mitt í Vogum við Vatnsleysisströnd og hef lagt á mig töluverða vinnu til þess að eignast það og hér ætla ég búa.“

Agnieszka Ewa Piotrowska
Strætóbílstjóri

Deila