Efling stéttarfélag

„Þegar ég fer heim vil ég alltaf fá pólsku pylsurnar og Bigos“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég var að koma frá Póllandi, ég skrapp heim í viku að sinna mömmu sem er veik, ég tók út 10 daga desember orlofið mitt núna og sleppi því að fara heim um jólin, næsta ferð verður líklega ekki fyrr en næsta sumar. En auðvitað ef það er eitthvað mikið sem liggur við þá tala ég við yfirþernuna og fæ að skreppa.

Við erum yfirleitt tíu konur hérna sem erum að þrífa herbergin, aðallega frá Víetnam, Thaílandi og Póllandi. Ég fæ í kringum 230 þúsund krónur í kaup fyrir þrifin þegar allt hefur verið dregið frá, ég mæti klukkan átta á morgnanna og fer heim klukkan hálf fimm, auka hálftíminn er hléið okkar, annars er þetta átta stunda vinnudagur. Ég vinn 3 daga, frí 2 og vinn 3, frí 2, vinn 4, frí 1, vinn 4, og frí 2 daga sem er fríhelgin á þriggja vikna fresti. Þetta gera samtals 22 eða 23 vinnudagar á mánuði. Mér líður vel í vinnunni, ég er almennt hamingjusöm, heilsan er góð og svo á ég góðann mann.

Ég kem frá Plock í Póllandi og vann þar í eldhúsinu á veitingastað þangað til staðnum var lokað og ég stóð uppi án vinnu. Vinkona mín sem bjó hérna og vann á Grand Hótel sagði mér að koma til Íslands. Þetta var fyrir sex árum síðan og auðsótt fyrir mig að flytja mig hingað, þar sem ég var ekki bundin neinum. En hérna kynntist ég mínum manni, hann er bifvélavirki og hefur búið á Íslandi í 11 ár. Við fórum heim og giftum okkur í Póllandi þar sem synir mínir tveir og fjölskyldur þeirra búa. Annar sona minna er líka bifvélavirki og fer á milli, en atvinnuástandið er ekki gott í Póllandi, hann kemur hingað, býr hjá okkur og vinnur í nokkra mánuði á sama bifvélaverkstæði og maðurinn minn og fer svo aftur til Póllands í faðm fjölskyldu sinnar.

Það var gott að fara heim núna, þótt þetta hafi bara verið skotferð, gott að hitta strákana mína og svo auðvitað mömmu, en þegar ég fer heim á sumrin og dvel lengur þá nota ég ferðina og fer til læknis í leiðinni en aðallega til tannlæknis, það er ódýrara þar þrátt fyrir að ég sé ekki lengur sjúkratryggð í Póllandi af því lögheimilið mitt er hérna.

Þegar ég fer heim vil ég alltaf fá pólsku pylsurnar mínar og Bigos sem er pólsk kássa með kjöti og káli og Pierogi, það eru pólskar “dumplings” með kartöflustöppu og ostafyllingu. Annars fæ ég flest allt á Íslandi í pólska matinn minn en munurinn liggur aðallega í hráefninu, annarskonar kjöt og kál.“

Agniezka Ryniec
Kaffibarþjónn

Deila