Efling stéttarfélag

„Þegar þú sérð fólk sem manneskjur þá hættir það að vera ógnvekjandi“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég fæddist í Bosníu í lok stríðs og upplifði aldrei átökin sjálf. En þetta hafði áhrif á fullorðna fólkið, pabbi og mamma fluttu til Íslands í leit að betra lífi á meðan bjó ég hjá afa og ömmu sem var dásamlegt í mínum augum. Það voru ekkert sérstaklega góðar fréttir sem ég fékk sjö ára, þegar mér var sagt að ég væri að flytja til Íslands. En ég er þakklát í dag að eiga þessa tvo heima.

Mér finnst það ómetanlegt að hafa kynnst því að hafa lítið milli handanna, mér finnst ég vera sjálfstæðari fyrir vikið gagnvart hlutum og hinum efnislega þætti lífsins. Margt fólk þekkir bara að hafa allt af öllu, skiljanlega ef þú elst upp við það og þekkir ekki annað.

Ég er aðstoðarkona á bráðamóttökunni og þetta er flottasti vinnustaður sem ég hef unnið á, ég hef lært svo mikið um fólk og hluti, meira en mig hefði nokkurn tíma dreymt um. Hérna færð þú góða þjálfun í samskiptum við aðra. Hugsunargangur minn breyttist um 360 gráður við að sjá fólk í allskonar ástandi, mér finnst einstaklega áhugavert að tala við fólk með geðræn vandamál af því að þau hugsa öðru vísi, opna nyjan heim fyrir mér og ég sé mitt eigið líf frá öðru sjónarhorni.

Bráðamóttakan er mikil álagspunktur á spítalanum, allir koma fyrst hingað og við megum ekki víkja neinum frá. Öll stórslysin og smáslysin, flensa og niðurgangur. Það getur verið allt frá því að fólk komi með frunsu og svo gamalt fólk sem kemst ekki héðan af því að það er ekki pláss á hjúkrunarheimili og þá verðum við að búa til gangapláss fyrir fólk, græja og gera. Þannig er stemmningin hérna við verðum að hugsa í lausnum, koma fólki á viðeigandi deildir og úrræði, og það eru nýjar uppákomur á hverjum degi.

Það er svo mikið að gerast hérna að maður þarf að sýna sveigjanleika og gera hluti sem standa ekki í starfsmannalýsingunni. Hjálpa við að klippa fötin af, koma fólki akút í sneiðmyndatöku, maður lærir ábyrgð og að ganga í málið. Þetta er svo mikill skóli sem nýtist manni á öllum sviðum lífsins. Gott fyrir fordómana, maður fær aðra sýn á fólk, kannski ekki alltaf fallega sýn en þegar þú sérð fólk sem manneskjur þá hættir það að vera ógnvekjandi.

Ég hef unnið með skóla frá því í sjöunda bekk og ég er þakklát fyrir að fá vinnu en ég veit að í Bosníu er hámenntað fólk sem fær enga vinnu við sitt hæfi. Ég er bara með stúdentspróf og hef unnið á G-2 í fullu starfi í þrjú ár og ég mun vonandi halda áfram að vinna í heilbrigðisgeiranum. Ég vinn vaktavinnu, morgunvakt frá 7.30 til 15.30 og kvöldvakt frá 15.30 til 23.30 og síðan næturvakt frá 23.30 til 7.30 og einstaka sinnum eru millivaktir frá 12 til 20 á kvöldin. Mér finnst það ekkert mál, vaktavinna hentar mér mjög vel, svona bland í poka og næturvaktirnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér, ég er mikill næturfugl.

Hérna vinnur meir og minna bara ungt fólk. Það eru nokkrir sem eru eldri og hafa verið hérna lengi. Það er mikil starfsmannavelta, og launin eru ekki í samræmi við álagið. Maður þarf að vera andlega tilbúin fyrir þessa vinnu, enda eru hérna miklir vinnuhestar, sem ná samt að gefa af sér þótt að það sé brjálað að gera. Það segir mikið um gæði fólksins sem vinnur hérna. En við mikið álag getur oft verið erfitt að veita sjúklingum athygli og persónulega þjónustu. Það eru þvílík forréttindi hvað við erum með góðann deildarstjóra sem standur við bakið á okkur, það er ekkert sjálfgefið. Til dæmis er alltaf morgunmatur hérna, hafragrautur, brauð og meðlæti, þetta er lítið og sjaldnast getum við öll borðað saman, en það skiptir máli, það myndast svona hópefli og skapar stemmningu sem telur. Svo eru stundum pantaðar álagspizzur eins og við köllum þær, það er þegar það er mikið álag og þá er verið að þakka okkur fyrir vinnuna sem við leggjum á okkur.

Það er kona sem vinnur í eldhúsinu sem sér um það að halda kaffistofunni hreinni en hún og deildarstjórinn halda svona morgunverðarhlaðborð einu sinni í mánuði og tileinka það einhverju landi, tld. Miðjarðarhafs- eða amerískur morgunmatur. Það gerir svo mikið fyrir starfólkið að finna fyrir umhyggju þótt það sé bara í þessu formi. Við erum heppin á G-2.“

Ajna Pidzo
Aðstoðarkona á G-2, bráðamóttöku Borgarspítalans

Deila