Efling stéttarfélag

„Við byrjuðum allar í fisk áður en við færðum okkur yfir í öldrunarþjónustuna“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Systir mín sem þegar bjó á Íslandi hjálpaði mér að koma hingað um aldamótin. Hún er hins vegar flutt og hefur búið lengi í Danmörk, en það er sárabót að Yolanda frænka mín býr hérna, það er gott að hafa fjölskylduna sína nálægt sér. Við unnum allar hjá Toppfisk þar sem ég starfaði í fimm ár, en síðan flutti ég mig yfir í ræstingarnar hjá Landsspítalanum. Þeir borguðu mér betur fyrir ræstingarnar á spítalanum en í Toppfisk og mér var ekki kalt. Þegar kreppan skall á 2008 gerði spítalinn útboð á ræstingunum og þá kom inn ræstingarfyrirtæki sem tók yfir ræstingarnar og kaupið lækkaði, spítalinn hafði borgað betur.

Góðu fréttirnar í þessu voru þær að ég var orðin ófrísk og mátti ekki vinna af læknisráði og þurfti hvort eð er að hætta á spítalanum. Þegar dóttir mín var aðeins átta eða níu mánaða, þá sótti ég um vinnu í Furugerði, heimaþjónustu við aldraða og hef verið hérna í níu ár. Síðan hafa nokkrar af vinkonum mínum bæst við og komið yfir í heimaþjónustuna. Yolanda frænka mín sem var hjá Toppfisk var alltaf að segja mér hvað kaupið þar væri lélegt vildi gjarnan komast í betri vinnu. Ég talaði við yfirmann okkar í heimaþjónustunni og hún kom hingað, og Anna Reha vinkona okkar sem var þá í fisk hjá Granda skipti líka yfir. Við byrjuðum allar í fisk áður en leiðin lá hingað yfir í þjónustu við aldraða.

Ég tek þær aukavaktir sem eru í boði og maðurinn minn sem vinnur í eldhúsinu á Landsspítalanum tekur líka alla vinnu sem hann mögulega fær. Ef hann á frí og þeir hringja frá spítalanum og biðja hann um að koma þá mætir hann þótt að hann sé örþreyttur. Hann borgar húsið og ég borga allt hitt, og svo skiptum við matnum á milli okkar. Við hjónin sendum bæði peninga heim til fjölskyldna okkar. Við brauðfæðum eina fjölskyldu á Íslandi og höldum uppi fjölskyldum okkar á Filippseyjum, þetta er auðvitað geggjun en þetta hefur enn þá alltaf bjargast, í 18 ár, og væri orðin dágóð summa í dag ef við hefðum lagt þessa peninga fyrir. En það má ekki skilja það þannig eins og ég sjái eftir því, þetta er fjölskyldan mín, mamma, pabbi og systir mín sem fá í staðin góðann mat og geta keypt sér það sem þeim vantar.

Ég á tvær dætur, önnur er sextán ára gömul, hún er í sjúkraliðanámi í FÁ, sú yngri er níu ára í Austurbæjarskóla sem er besti skólinn í mínum augum, og það hef ég frá eldri dóttur minni, sem kláraði grunnskólanámið sitt í Austurbæjarskóla. Skólinn veitir útlenskum börnum mikinn stuðning. Íslenska er ekki okkar móðurmál og stelpurnar mínar fá því ekki nægan stuðning heima fyrir með tungumálið en skólinn bætir þeim það upp svo sannarlega.

Mig hefði langað að taka sjúkraliðann eða hjúkrun en ég er orðin of gömul, ég er 37 ára. Ég er búin að klára fagnámskeið númer eitt og þegar tími gefst tek ég fleiri námskeið, en í augnablikinu er ekki nægur tími. Eftir vinnu er ég bara svo upptekin, ég tek strætó úr vinnunni niður á Snorrabraut og labba í Draumaland þar sem dóttir mín er í frístund eftir skóla og svo göngum við saman í annan strætó sem fer út á Granda en ég bý vestur í bæ. Þetta tekur sinn tíma og þá á ég eftir að elda.

Þegar stelpan mín verður eldri þá getur hún farið ein með strætó og þá get ég kannski farið á fleiri fagnámskeið. Allt verður auðveldara þegar börnin verða eldra og sjálfbjarga. Þetta er gallinn við að vera útlendingur, ef ég væri heima á Filippseyjum, þá væri ég með fjölskyldu allt umlykjandi sem væri mér innan handar með barnið mitt. Ég vona að fólk haldi ekki að ég sé löt af því ég kemst ekki á fleiri fagnámskeið í augnablikinu eða treysti mér ekki í skóla.“

Analiza C. Gueco
Þjónusta við aldraða

Deila