Efling stéttarfélag

„Ég er herbergisþerna og maðurinn minn vinnur á bílapartasölu“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég og maðurinn minn sem að vísu á þeim tíma var bara kærasti minn, komum hingað fyrir nokkrum árum að safna fyrir giftingunni okkar, og fórum svo heim og héldum veislu að pólskum sið. Við réðum okkur bæði sem herbergisþernur á hótel, en okkur var ekki leyft að vinna á sömu vaktinni og fengum þá ástæðu uppgefna að það væri ekki holt fyrir sambandið okkar og það myndi skapa vandræði að hafa okkur saman, þannig að þegar hann átti frí þá var ég að vinna og öfugt. Ég veit ekki hvað vakti fyrir fólkinu, við höldum helst að þau hafi verið afbrýðisöm.

Við fórum heim og giftum okkur, en erum aftur komin til Íslands þrem árum síðan, og ekki hægt að líkja því saman af því að núna er allt svo kunnuglegt. Ég fékk vinnu sem herbergisþerna hérna á Natura og maðurinn minn vinnur á partasölu og undirbýr varahluti úr bílum fyrir sprautun. Ég byrja klukkan 8 og klára klukkan 16.20 og hef 10 mínútur til að taka dótið mitt saman og stimpla mig út kl. 16.30. Ég fæ þrjú hlé, morgunkaffi, 30 mínútur í hádegismat og 15 mínútur í seinna kaffi. Vaktarprógrammið er 3-2-3-2-4-1-4-1 og stundum vinn ég tvær helgar og stundum bara eina og fæ borgað 230 þúsund krónur.

Við verðum að aðlaga vinnudaginn eftir því hvernig fólk tékkar inn og út. Við getum ekki byrjað fyrr en fólk hefur yfirgefið herbergið og stundum er hópur sem bíður í lobbíinu á meðan við erum að klára. Álagið er mest á sumrin, þá erum við oftast undirmanna út af fríunum og gestirnir eru fleiri. Það geta verið svona stressdagar kannski fjórir í einu og einn frídagur og aftur fjórir álags vinnudagar og við þernurnar þreyttar að flýta okkur og þá getur verið erfitt að mæta í vinnuna.

Við þurfum að velja á milli að vinna hratt eða hvort við ætlum að þrífa vel og hafa þetta fullkomið sem getur komið illa niður á okkur þannig að við getum ekki klárað öll herbergin áður en við þurfum að stimpla okkur út en verri kosturinn er að fara hratt yfir og missa af einhverju. Umgengni gestanna eru dáldið mismunandi eftir þjóðerni og mín reynsla er að Þjóðverjar og Bretar ganga stundum ansi frjálslega um.

Við sem vinnum hérna í ræstingardeildinni komum frá Thaílandi, Víetnam og Póllandi. Mér skilst að hérna áður fyrr hafi helmingurinn verið pólskur og hinn helmingurinn frá Asíu, en að Asíubúum hafi samt fækkað jafnt og þétt með tímanum í deildinni og pólverjum fjölgað . Stundum kemur upp tungumálamisskilningur sem veldur spennu, þá verður allt svo stirt og endar með því að allir eru orðnir vænisjúkir og engin treystir neinum.

Ef ég kæmi mér upp venjulegri kjarnafjölskyldu á Íslandi þá myndi þernukaupið ekki duga vegna þess hversu leiguverð er hátt og matur dýr. Við leigjum fjögur íbúð saman og borgum tæplega 60 þúsund á mann. Bílskrjóðurinn er aðal spennuvaldurinn, hvort að hann fari í gang eða ekki, en hérna kostaði hann 400 þúsund krónur sem er hins vegar ódýrt miðað við verð á bíl í Póllandi.“

Aneta Brzozwska
Herbergisþerna

Deila