Efling stéttarfélag

„Við viljum að vinnan okkar sé metin og fá hærra kaup“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er ein af þeim sem flutti hingað til Hveragerðis en vann í Reykjavík. Ég fór að heiman klukkan sjö og keyrði yfir heiðina og kom aftur heim um kvöldið tólf tímum síðar. Ég var atvinnurekandi og rak efnalaug á Laugarásvegi í tíu ár. Þetta er eins og að búa í sumarbústað, ég verð ekki vör við neitt og ég þekki fáa, það er ágætt, veit ekkert hvað er verið að slúðra.

Sambýlismaður minn fékk þessa hugmynd um sama leyti og ég stofnaði efnalaugina í bænum að flytja til Hveragerðis. Það var árið 2005 og mér fannst þetta galin hugmynd þá. Ég er Þingeyringur og aldrei hefði mér dottið í hug að keyra á milli Þingeyrar yfir fjall til Ísafjarðar til þess að sækja vinnu á hverjum degi. En þetta gerðum við og hér er ég enn. Síðastliðin tvö ár hef ég starfað hérna á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins.

Við mætum klukkan átta og klárum korter yfir þrjú. Eftir að hafa unnið fram eftir í mörg ár þá er ég mjög sátt við vinnutímann hérna í ræstingunum. Við erum að allan tímann, alltaf nóg að gera, við erum auðvitað út um alla eignina upp og niður ganganna. Við tökum allt húsið og fimm íbúðir hérna á lóðinni og herbergin en hér geta verið allt upp í 140 gestir.

Það er alltaf verið að berjast fyrir auknum lífeyrisréttindum eða lengra sumarfrí en við viljum að vinnan okkar sé metin og fá hærra kaup. Við erum ekki að sækjast eftir því að borga í einhvern starfsmennta- eða endurmenntunarsjóð, það er ekki eitthvað sem við þessi eldri munum nýta okkur.“

Anna Sveinbjörnsdóttir
Ræstitæknir á Heilsustofnun NHLÍ

Deila