Efling stéttarfélag

„Það var svo mikil samstaða meðal verkafólksins í Danmörku.“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hef meðal annars starfað sem sjómaður, ráðsmaður og stjórnað lyftara á Eyrinni. Eftir að sjö tonna lyftari keyrði yfir mig var ég frá vinnu í fimm ár. Mér leiddist að gera ekki neitt og sótti loksins um vinnu á bensínstöð. Ég hef unnið hérna á stöðinni á Bíldshöfða í þrjú og hálft ár, var færður til af annarri bensínstöð þar sem ég byrjaði. Fyrst var ég í vaktavinnu en svo var því breytt í dagvinnu.

Ég kalla fólkið sem vinnur hérna frændur mínar og frænkur, þetta er yndislegt fólk, mjög gott og skemmtilegt. Starfið er lifandi og það er gott að þjóna fólki og hjálpa því. Ég þekki mína fastakúnna sem koma hingað að fá bensín og þeir þekkja mig.

Það er mjög frískandi að vinna úti, hressandi og ekki stressandi. Ef það er of mikið að gera þá kalla ég á frændur mínar og frænkur og þau koma hlaupandi og hjálpa mér. Erum við ekki öll frændur og frænkur?

Kaupið er sæmilegt en það mætti vera betra. Ég og konan mín eigum íbúð saman en ég neita mér um bíl. Það er svo mikill lúxus að eiga bíl. Það kemur fyrir að ég leigi bíl ef svo ber undir.

Aðeins 18 ára var ég komin til Danmörku. Ég vann þar í fiski til að byrja með og síðan vann ég við að afferma skip. Það var svo mikil samstaða meðal verkafólksins í Danmörku. Þegar við réðum okkur í hafnarvinnu þar niður frá, ég og kunningi minn vorum við hvorugir í verkalýðsfélagi. Þegar það komst upp þá lagði fólkið niður vinnu og fór í verkfall og krafðist þess að við værum í verkalýðsfélagi eða létum okkur annars hverfa. Ég skráði mig í Special Arbejderforbundet en kunninginn hætti við og lét sig hverfa.“

Ari Bragason
Útimaður á bensinstöð

Deila