Efling stéttarfélag

„Ég fann krítarpípu og mannsbein“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Þessi draumur um að vera kaffibarþjónn hefur fylgt mér lengi, ég labbaði hingað inn og sótti um og eigendunum leist vel á mig. Þegar það kom í ljós að ég væri í námi í fornleifafræði þá fór atvinnuviðtalið meir og minna að snúast um fornleifar. Við erum víst ekki mörg í þessu fagi.

En kosturinn við vinnuna hérna er sá að hún er mjög sveigjanleg, ég er ekki bundinn og get aðlagað þetta að náminu, ég var hérna 50 prósent í október, þegar það var lítið að gerast í skólanum, en hvað ég vinn mikið fer eftir því hvort það vantar mannskap hérna og hvað skólinn krefst mikils tíma af mér.

Fyrsta fornleifagreftrunarvinnan mín var í sumar, það var uppgröftur fyrir norðan, rétt við Þingeyrarkirkju, og ég fann krítarpípu og mannsbein. Ég byrjaði að vinna hér á kaffihúsinu strax á eftir, og var enn þá að drepast í skrokknum, eftir að hafa verið í átta vikur á hnjánum að grafa.

Mér fannst það taka allavega mánuð að læra að gera allt rétt, kaffið, þeyta mjólkina og muna samsetninguna á öllum drykkjunum. Við erum samt að reyna að vera hefðbundnir og gera einfalda og góða hluti. Af og til koma inn ferðamenn og panta Frappotíno með þeyttum rjóma og heslihnetu síróp en ég get ekki boðið upp á það enda myndi ég ekki heldur vilja vinna á Starbuck.

Mér finnst skemmtilegt að vinna hérna, hingað koma mikið stamgestir, sumir koma með tölvuna sína og reka litlu fyrirtækin sín héðan. Í sumar komu oft pólskir verkamenn frá byggingarsvæðunum í kring, þeir komu stundum margir saman og tóku þá nokkur borð undir sig og fengu sér bjór eftir vinnu af evrópskum sið, á meðan Íslendingarnir koma um helgar í bjór eða rauðvín, en það er aldrei neitt fyllirí, þetta er ekki þannig staður.

Það er svona samfélagsvitund hérna í Hafnarfirði, þetta hafnarfjarðarstolt sem mér finnst áhugavert. Ég er oft spurður af gestunum hvort ég sé Hafnfirðingur eða hvort foreldrar mínir séu Hafnfirðingar. Á móti fæ ég að heyra að þeir sjálfir séu Gaflarar eins og pabbi þeirra og mamma og afi og amma, og ég er þá spurður í framhaldinu af hverju ég sæki vinnu til Hafnarfjarðar? „Af hverju vinnur þú ekki í Garðarbænum, þar sem þú býrð?“ Ég svara því til að það sé lítið um kaffihús í Garðabæ, þar er fólk heima hjá sér og sækir vinnur og kaffihús til Reykjavíkur. En ég þekki þessa samfélagsvitund frá öðrum hverfum, amma mín er Breiðhyltingur og hún er með þessa sterku hverfistilfinningu og sér alla leiki með Leikni.

Ég var góður að selja kaffivélarnar í raftækjabúðinni Einar Farestveit & co þar sem ég vann sem sölufulltrúi lengi vel, en ég kvaldist af stressi þegar ég seldi ísskáp á hálfa milljón, hvað ef ísskápurinn myndi klikka? Það gat tekið á andlega, það var stress. Hérna get ég alveg orðið þreyttur líkamlega eftir langa vakt, en ég er alveg þokkalega rólegur yfir því að selja fólki kaffibolla og heimabakaða skonsu sem getur varla klikkað.“

Artur Knut Farestveit
Kaffibarþjónn

Deila