Efling stéttarfélag

„Ég er sextán og vinn í fisk og í bakarí um helgar“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er sextán og stundaði tvær vinnur í sumar. Dagvinnu í fiskvinnslunni og aðra hvora helgi í bakarí. Ég er í Versló og er að safna, ætla að klára tvö ár í skólanum og fara síðan í skiptinám til Argentínu og komast langt í burtu frá Íslandi. Ég vinn í bakarí með skólanum í vetur.

Að vinna í fisk er mjög fín vinna, gallinn er bara sá að það tala fáir ensku. Vinnan er vel borguð, fast tímakaup er 1.500 á tímann og 2.400 krónur fyrir yfirvinnutímann. En mér finnst skemmtilegra að vinna í bakaríinu, það er rosalega gaman af því þar líður tíminn svo fljótt, þar er ég að vinna með jafnöldrum mínum. Í fiskinum vorum við bara þrír Íslendingar, ég og vinkona mín sem vorum sumarstarfsmenn og einn í viðbót og allir eldri en við. Það leggst hræðilega illa í mig ef ég þarf að vinna í fisk það sem eftir er ævinnar, en ég væri alveg til í að eiga mitt eigið fiskverkunarfyrirtæki.

Ég bý enn þá heima hjá fjölskyldu minni, það er fínt að fá frítt húsnæði. Vinir mínir og ég vonumst til þess að húsnæðismarkaðurinn verði komin í lag eftir fimm eða tíu ár og þá verði hægt að fara að leigja en ég mun flytja að heiman þegar það verður mögulegt. Ég er að safna og ég er komin með hálfa milljón, ég eyði bara í föt og ég fer stundum í bíó.

En helst myndi ég vilja flytja og vinna í útlöndum eftir háskólanám, ég er nokkuð viss um að ég eigi eftir að búa í útlöndum, kannski ekki að eilífu en allavega svona fimm ár. Ég myndi ekki vilja flytja til Póllands, ég held að kaupið sé of lágt, en það færi líklega eftir því við hvaða vinnu ég myndi vinna. Manni skilst bara að kaupið sé hærra á öðrum stöðum en akkúrat í Póllandi sem er ofsalega fallegt land og ég ætla að fara þangað, ég stefni á ferðalag með systur minni á næsta ári. Við ætlum til Austur-Evrópu í bakpokaferðalag frá Póllandi til Króatíu, af því þar er ódýrt að ferðast.“

Auður Rán Pálsdóttir
Fiskverkunarkona

Deila