Efling stéttarfélag

„Ég vil ekki fara á leigumarkaðinn aftur, næst vil ég hafa eitthvað öruggt fyrir mig“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er Breiðhyltingur í húð og hár, Breiðholtið er mitt “Hood”. Hérna er gamli leikskólinn minn þar sem ég dvaldi fyrstu ár ævinnar, en hann starfar í dag undir nafninu Holt og gamli leikskólakennarinn minn er ennþá að annast börnin úr hverfinu. Mér fannst yndislegt að alast hérna upp, ég hef búið út um allt Breiðhollt, í Unufelli, Hábergi og Hólunum, þetta er skemmtilegt hverfi, hérna búa allir vinir mínir og fjölskyldan nema nokkur sem hafa flutt sig í Grafarholtið, hér vil ég helst búa af öllum stöðum í Reykjavík.

Þegar ég var unglingur þá gengum við, ég og vinkona mín um allt hverfið, ég bjó í Fellunum og vinkona mín bjó í Bökkunum og við löbbuðum á móti hvor annarri með MP3 spilarann í eyrunum. Þriðja vinkona okkar bjó í Árbænum og það þótti lítið mál að labba til hennar eða hittast á miðri leið. Hverfið var okkar heimur, þar sem við þekktum allt og Hong Kong í Fellunum var hverfissjoppan, sjoppan þar sem þú hittir alla.

Ég var frekar fúl út í mömmu þegar við fluttum í Grafarvoginn þegar ég var átta ára, ég skipti um skóla sem var ekki gott, en á þeim tíma var það varla í myndinni að sækja skóla utan hverfisins. Ég tók strætó yfir í Breiðholtið og dvaldi hérna öllum stundum eftir skóla með vinum mínum og þeim hluta fjölskyldunnar sem bjó hérna. Ég er ennþá strætómanneskja, ég er ekki með bílpróf og þegar ég á frí reyni ég eins of og ég get að heimsækja vinkonu mína úr Árbænum sem er flutt vestur í sveitakyrrðina, þar líður mér vel.

Ég flutti oft með mömmu, við fluttum sjö sinnum á milli leiguíbúða og síðast fluttum við úr raðhúsi í Breiðholtinu þegar leigan var orðin of há og færðum okkur í minna rými í Grafarholtinu. Ég er ennþá í Grafarholtinu eftir að mamma lést fyrir þrem árum, ég flutti inn til bróður míns og ætla ekki að flytja frá honum fyrr en ég get keypt mér eitthvað sjálf eftir nokkur ár. Ég vil ekki fara á leigumarkaðinn aftur, næst vil ég hafa eitthvað öruggt fyrir mig, en ég þarf að eiga 5 milljónir til þess að geta keypt mér íbúð. Í laun er ég með 270 þúsund krónur á mánuði, það fæ ég fyrir stuðning í fullri vinnu á leikskóla en ég reyni að leggja smá fyrir. Ég stefni á þroskaþjálfarann þegar ég hef komið mér fyrir í eigið húsnæði, en ég get ekki farið í skóla, unnið og safnað og gert allt í einu.

Ég hef reynt að taka aukavinnu um helgar, og þrátt fyrir að vera ung hef ég litla orku eftir leikskólavikuna, það var ekki að gera sig. Ég hef unnið á Ösp í átta ár og fólk er að spyrja mig afhverju skiptir þú ekki um leikskóla og ferð að vinna í Grafarholtinu í þínu hverfi? Ég er í mínu hverfi sem er Breiðholtið og ég fer ekki neitt og mun vera hérna áfram.

Ég finn ekki fyrir miklum breytingum á hverfinu, nema að blokkirnar eru orðnar gamlar og það eru fleiri erlend börn. Börnin eru yndisleg og mér finnst svo gaman að hafa þetta svona blandað, ólík börn með ólíkar þarfir, mikil áskorun á svo spennandi hátt, ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég er stuðningur með einu barni, en auðvitað gengur maður í allt, við erum alltaf frekar undirmönnuð hérna. Ég var svo þreytt áðan að ég sofnaði með börnunum.“

Berglind Ósk Magnúsdóttir
Stuðningsaðili á leikskóla

Deila