Efling stéttarfélag

„Það væri gaman að ná heimsmeti í einhverjum þyngdarflokki“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hef aðstoðað í eldhúsinu í sjö mánuði, frá átta til fjögur. Ég er í uppvaskinu og tek inn vörur og reyni að gera eitthvað að viti. Ef það er eitthvað þungt sem þarf að bera þá fer ég í það. Hér fæ ég alltaf rétt borgað miðað við margt annað sem ég hef prófað, bæði yfirvinnuna og rauðu dagana. Frábært fólk sem ég vinn með og lítið mál að vakna og koma sér í vinnuna.

Ég er hins vegar á leiðinni í búfræðinginn á Hvanneyri ásamt því að taka bifvélavirkjann, ég reikna með að vera útskrifaður og búin að klára hvort tveggja eftir fimm ár. Ég ætla að taka við kúabúinu heima af pabba, en það lifir engin á kúabúinu einu, það er bara fyrir matarreikningnum. Ég sé fyrir mér að taka við búinu með skuldunum og byggja við hliðin á kraftlyftingarstöð. Með fram búinu verð ég líka að vera með eitthvað öryggi eins og bifvélavirkjann. Ég sé þetta fyrir mér í þessari röð, fyrst kraftlyftingarstöð og byggja upp reksturinn á henni, taka síðan við kúabúinu og setja upp bílasprautuverkstæði, þetta er draumurinn minn.

Til þess að byggja upp vöðvamassann og almennt heilbrigði þá ákvað ég að byrja að elda sjálfur ofan í mig. Fyrst var ég að borða sætar kartöflur og kjúkling en færði mig yfir í nautahakk og hrísgrjón. Það kostar sitt, ég er búin að éta hálfa belju síðan að ég byrjaði á þessu mataræði og ég get ekki borðað upp stofninn heima. Takmarkið er að borða 3000 kaloríur á dag og ná 400 í hnébeygju og 400 í réttstöðu og 280 í bekknum, með þennan árangur þá gæti ég dáið ánægður.

Það væri gaman að ná heimsmeti í einhverjum þyngdarflokki. Ná mér í heimsmeistaratitil, til þess að auglýsa kraftlyftingarstöðina. Ég get ekki verið bara einhver óþekktur með voða fína líkamsrækt við hliðin á kúabúi.

Mig langar að skara fram úr og verða velstæður bóndi. En fyrstu tíu og tuttugu árin verða örugglega fáránlega erfið. En ef allt gengur eftir þá ætti þetta að ganga upp. Mig langar að verða sjálfstæður atvinnurekandi, mér finnst allt í lagi að vinna undir öðrum, en mig langar að reyna meira á mig.“

Davíð Clausen Pétursson
Starfsmaður í eldhúsi

Deila