Efling stéttarfélag

„Það munaði litlu að ég hefði fætt son minn á einum öldutoppnum“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég sakna alltaf áranna á sjónum, það var skemmtilegur tími þegar ég vann á farþegaskipi og ferjum sem voru gerðar út frá Noregi. Ég hef siglt um allan heim, stundum voru þetta langir túrar, átta mánuðir þar sem ég var yfir matsalnum í voða fínum einkennisjakka með bróderuðum borðum. Á skipinu þurfti ég ekki að fást við hversdagslegu hluti eins og að elda og þvo af mér, það var eitthvað svo ævintýralegt að vera á sjónum, engar fréttir, skilja eftir áhyggjurnar á landi og sigla um.

Ég var komin níu mánuði á leið þegar við sigldum á úfnum Norðursjónum, það var á ferju sem fór á milli Bergen og Newcastle, og það munaði litlu að ég hefði fætt son minn á einum öldutoppnum. Ég var undir verndarvæng skipstjórans, en á þeim tíma var ekkert sem hét fæðingarorlof fyrir konur sem unnu á sjó og ég þurfti að vinna eins lengi og meðgangan leyfði. Ég vann meira að segja fram yfir tímann og náði rétt í land áður en strákurinn fæddist.

Barnsfaðir minn, vinnufélagi og eiginmaður er Portúgali sem ég kynntist á sjó og eftir að sonur okkar fæddist þá varð ég að hætta og fara í land. En mér bauðst ekki spennandi atvinna í landi í Noregi með litla barnið og við tókum þá ákvörðun að flytja til heim til Portúgal og fluttum til Algarve sem er virkilega góður staður fyrir börn. Ég var að einu sinni að vinna á hóteli í Algarve þegar atvinnurekandinn vildi að ég myndi sækja barnið mitt á leikskólann og hafa það hjá mér. Í Portúgal eru börnin meira með hinum fullorðnu en við þekkjum hérna fyrir norðan og oft fylgja börnin foreldrum sínum til vinnu, það er alveg algengt að sjá konu á kassa í búð og barnið situr hjá henni, allavega í minni bæjum, kannski síður í Lissabon.

Við hjónin opnuðum okkar eigið kaffihús í Algarve á sínum tíma, sem þjónaði frekar innfæddum en almennum ferðamönnum, þetta var fyrir kreppu, en svo kom hún og þá hættu Portúgalar að fara á kaffihús og ferðamönnum fækkaði þannig að við tókum aftur ákvörðun um að breyta til og leggja land undir fót og fluttum hingað heim til Íslands. Hérna á hótelinu vinnum við bæði í ráðstefnusalnum, ég og minn maður og unum okkur vel.

Við búum í Kópavogi, rekum einn bíl og eigum eitt strætókort sem við skiptumst á að nota. Sá sem þarf að mæta snemma á vaktina sína fær bílinn en hitt tekur strætó, en því miður er ekki hægt að reiða sig á strætó sem byrjar fyrst að keyra klukkan sjö á morgnanna þegar ég á að vera mætt í vinnuna á slaginu sjö. Mér finnst þetta alltaf undarlegt fyrirkomulag af því þetta á nú einu sinni að heita höfuðborg landsins þar sem samgöngukerfið gæti alveg þjónað vinnandi fólki betur.

Ég vinn tólf tíma vaktir og ég er stundum lúin þegar ég kem heim en það fer eftir því hvað ég er að bera marga stóla og mörg borð yfir daginn. Við erum alltaf að raða upp, breyta erfidrykkjusal í fundarsal eða öfugt og dekka upp á nýtt. Ég fylgist með og hef yfirsýn yfir salinn, fylli á kaffi og meðlæti og allt sem til þarf fyrir svona viðburði. Þetta er mjög skemmtileg vinna, ég sakna hennar þegar ég á frí og ég ætla allavega að vinna til 67 ára aldurs. Hér með mér á hótelinu vinna fáir Íslendingar, og ég segi stundum að ég sé hálfur Portúgali þótt ég sé reyndar stelpa frá Akureyri.“

Ellen Sverrisdóttir
Vaktstjóri í ráðstefnu og veislusal

Deila