Efling stéttarfélag

„Frá upphafi hefur alltaf einhver úr minni fjölskyldu starfað fyrir Kjörís“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Þótt að ég hafi unnið hérna í tíu ár þá hafa margir starfað hérna lengur en ég. Í upphafi, á fyrstu árum verksmiðjunnar, fyrir fimmtíu árum síðan unnu föðurbræður mínir hérna og í dag er bróðirdóttir mín í sumarvinnu í ísnum. Jói mágur hefur starfað hérna allavega í meira en tuttugu ár. Hann var fyrst í sölunni og svo fór hann inná lager. Dagbjört systir mín kom og vann líka í nokkur ár og kynntist Jóa og þau búa saman í dag. Ég held að alveg frá upphafi hafi alltaf einhver úr fjölskyldunni minni starfað hjá Kjörís.

Ég og fólkið mitt erum af bæ sem heitir Kirkjuferja. Bærinn heitir þessu nafni afþví í gamla daga var ferjað einmitt við okkar bæ yfir ánna. Pabbi var aldrei þannig sé með búskap hann var farinn að vinna annarsstaðar þegar ég ólst upp og við vorum bara með hesta. Ég bý hjá mömmu og pabba en ég er að safna fyrir eigin húsnæðið. Ég var að hugsa um að reyna að byggja sjálfur. Byggingarkostnaðurinn er 10 til 15 milljónir og ég get haldið húsnæðiskostnaðinum niðri ef ég byggi á lóðinni heima. Þetta er á þriggja ára planinu hjá mér, en ég þarf að safna svo skrambi mikið, tvær til þrjár milljónir til þess að fá lán hjá bankanum.

Ég hef starfað í túpunum í tvö ár, þar að segja starf mitt er að búa til ístúpurnar fyrir íssósurnar. Ég sit við vélina sem blæs þær út í form, steypi túpur og set límmiða á þær. Það hentar mér mjög vel, mikið betra fyrir bakið en mörg önnur störf hérna. Ég hef varla fengið verk í bakið síðan ég fór yfir á túpurnar. Þetta er mjög rólegt starf þar sem ég get hlustað á hljóðbækur eða útvarpið. Ég er búin að læra á meirihlutann inn í sal, þekki mest allt þar og leysi af ef einhver þarf að skreppa frá.

Ég hugsa stundum: „hvað er ég eiginlega búin að vinna hérna lengi?“ Ég byrjaði í sumarafleysingum sem breyttist fljótlega í fasta vinnu og núna eru liðin tíu ár. Ég myndi varla fara eitthvað annað nema mennta mig eitthvað fyrst. Þetta er þannig starf, allavega hérna í salnum og gott fyrir fólk eins og mig sem getur ekki haldið sér í skóla. Ég byrjaði á málabraut, og fór yfir á félagsbraut en hef ekki fundið mig í neinu enn þá. Ég get nefnt eitt stutt námskeið í forritun sem vakti áhuga minn. Hins vegar veit ég af fólki sem fór í nám en skilaði sér hingað aftur í ísinn.

Ég veit ekki af hverju, en þetta er bara góður vinnustaður og góðir vinnufélagar. Við klárum snemma á föstudögum en vinnum það upp hálftíma lengur aðra daga vikunnar. Þannig fáum við lengri helgi fyrir vikið, munar um það, sérstaklega fyrir fjölskyldufólkið. Síðasta föstudag í hverjum mánuði, þá er afmæliskaffi þar sem afmælisbörn mánaðarins eru heiðruð. Þá er öll framleiðsla stoppuð og boðið upp á veitingar og allir fara saman í kaffi, en annars er kaffitíminn tvískiptur.

Ég hef komið víða við í fyrirtækinu á þessum tíu árum. Ég byrjaði á lagernum, fékk réttindi á lyftara sem þurfti auðvitað og svo fór ég í framleiðslusalinn. Ég hef líka verið í afleysingum á skrifstofunni í skráningum og svoleiðis.

Það er mikill kostur fyrir mig að geta unnið í Hveragerði. Stutt fyrir mig að fara. Ég flutti hingað inn í þorpið í nokkra mánuði en það hentaði mér ekki og fór aftur heim í sveitina og keyri núna á milli. Mér finnst betra að búa á stað þar sem er fámenni og rólegt. En það er bara mín tilfinning.“

Finnur Torfi Guðmundsson
Starfsmaður hjá Kjörís

Deila