Efling stéttarfélag

„Ég kann vel að meta að keyra dauðann farangur“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég verð að segja að þetta er besta vinnan sem ég hef fengist við. Við vaktarmennirnir erum settir í lengri túra og keyrum út á land, þá getur maður setið einn í heiminum á veginum og hlustað á hljóðbók, ég hef ekki töluna á því hvað ég hef hlustað á margar bækur.

Skip frá Noregi siglir í kringum landið og fyllir á alla tanka. En Skeljungur er með bensíntanka í Reykjavík, á Akureyri og Eskifirði. Reykjavík þjónar Vestfirðina með dísel og þá þarf að keyra vestur með farminn. En svo þarf að keyra flugvélabensín fyrir litlu rellurnar sem við þjónum um allt land og þá keyri ég kannski á Mývatn, eða með flugsteinaolíu sem fer á þoturnar eða vélaolíu á Freysnes, ég er í öllu.

Ég var rútubílstjóri eitt sumar og keyrði túrista út á Völl og í Bláa lónið fyrir Kynnisferðir, en það borgaði sig ekki að keyra rútuna nema í næturvinnu, kaupið er það mikið lægra og næturvinnan krefjandi og eftir að hafa fengið sömu spurninguna frá túristunum í fimm hundraðasta skiptið hætti ég og hef síðan kunnað að meta að keyra dauðann farangur.

Við hittumst alltaf bílstjórarnir á morgnanna í morgunkaffi en þetta er eini vinnustaðurinn sem ég hef þekkt sem er átakalaus og ég hef komið víða við, sölumennska, smíði, og múrverk og verið stuðningsfulltrúi í grunnskóla en hérna er alveg sérstaklega góður mórall. Við vorum að koma frá Færeyjum úr starfsmannaferð og þar voru allir að faðmast, meir að segja bláedrú.

Það er koja í bílnum og stundum verð ég að gista, við erum með hámarkstíma sem við megum keyra og þurfum að stoppa, og öfugt við það sem fólk heldur þá er þetta eftirsóknarvert og slegist um þessar ferðir þar sem keyrt er þangað til að tölvan segir nei, og þá verður maður að stoppa og horfa á kannski á eina mynd áður en maður leggur sig. Sumir eru bara sjö til fimm og vilja vera þannig. En ég er á tólf tíma vaktarkerfi, sama og lögreglan og slökkviliðið. Voða þægilegt, 5,5,4 kerfið.

Þegar við skildum ég og barnsmóður mín, þá leið mér þannig að ég þyrfti að komast eitthvað langt í burt og í eitthvað allt annað umhverfi. Ég tók meirapróf og sótti um útlendingaherdeildina í Frakklandi og komst inn. Ég sá fyrir mér atvinnumöguleika, en það eru fyrirtæki um allan heim sem nota fólk úr deildinni í öryggisgæslu. Þetta var ágætis reynsla, ég var í stífri þjálfun í marga mánuði þangað til að ég reif lærvöðva sem náði aldrei að jafna sig af því ég var alltaf kallaður aftur í æfingar. Þetta var mikil harka, eitthvað annað en ég hafði vanist hérna á Íslandi, ég var tvo mánuði á spítala. Eftir níu mánuði þarna kom ég heim.

Þegar ég kom heim úr hernum var ég með hugmynd um að fara í slökkviliðið, og þá kom í ljós að ég þyrfti stúdentspróf og ég fór í Borgarholtsskóla og byrjaði þar sem frá var horfið á sínum tíma. Það var pínlegt að vera þrítugur í Borgarholtsskóla, aftur komin á skólabekk með sextán ára gömlum krökkum. En ég kláraði á einni önn fleiri einingar en ég hafði klárað á tveim árum þegar ég var unglingur og þegar ég sá engan tilgang með skóla. Við erum mörg sem erum ekki hlynnt þessari nýju 25 ára reglu, sem er að meina þér að setjast á skólabekk í almenna skólakerfinu vegna aldurs og þegar þú loksins sérð tilgang með náminu. Núna neyðist fólk til að fara í Keili og borga helling fyrir að taka stúdentspróf. En þegar ég var komin með stúdentsprófið upp á vasann og gat sótt um starf hjá slökkviliðinu tók ég Skeljung fram yfir.

Ég bý á Skaganum þar sem dóttir mín og barnsmóðir búa. Ég keypti mér hús þar á sama verði og blokkaríbúð í bænum. Ég bíð eftir því að fá leyfi til þess að keyra á bílnum beint heim eftir langar ferðir í stað þess að skila honum alltaf hingað á Hólmaslóð og eiga síðan eftir að koma mér heim. En það er í leiðinni að geta rennt sér inn á Skagann eftir langan túr, þegar ég kem frá Mývatni eða Ísafirði. Það verður miklu þægilegra.“

Gísli Snorri Rúnarsson
Meiraprófsbílstjóri

Deila