Efling stéttarfélag

„Byrjaði átta ára að passa börn og tólf ára að skúra“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég fæddist á Bíldudal en þegar ég var þriggja ára flutti fjölskylda mín suður og bjó við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Foreldrar mínir skildu og pabbi flutti út en við systkinin, ég og bróðir minn pökkuðum alltaf niður eftir skóla á laugardögum og fórum til pabba sem sinnti okkur um helgar og í fríum.

Pabbi var vélamaður á þungavélum og mamma vann við ýmislegt eftir skilnaðinn. Fyrst vann hún við skúringar, síðan á kaffistofunni í Togaraafgreiðslunni og síðast var hún í grænmetinu hjá Hagkaup. Ég byrjaði átta ára að passa börn og ég var tólf ára þegar ég byrjaði að skúra gólfin í Togaraafgreiðslunni. Þetta voru svona langir bekkir þarna, maður tók í annann endann og sporðrenndi honum upp til þess að komast að með kústinn.

Ég held að Harpan sé í dag á þessum bletti þar sem Togaraafgreiðslan var í sínum tíma. Þangað komu aðallega menn sem voru að vinna í kringum höfnina. Stundum komu rónar einsog við kölluðum útigangsmennina í þá daga, ég var nú hálfsmeyk við þá.

Í eldhúsinu hjá Togaraafgreiðslunni vann fullorðin kona sem bónaði eldhúsgólfið upp úr mjólk. Hún skúraði fyrst og helti síðan mjólk niður og bónaði gólfið. Mér dettur nú ekki í hug sjálfri að prófa þetta en þetta virkaði hjá henni.

Mamma bónaði alltaf með Mjöll, sem leit út eins og bleikt kertavax. Hún var á fjórum fótum og bar þetta á með einni tusku og svo nuddaði hún með annarri þurri tusku og þá glansaði gólfið einsog spegill. En sleipt var þetta og maður var alltaf á hausnum, sérstaklega ef maður var á ullarsokkum.

Eftir barnaskólann fór ég að vinna meðal annars í þvotthúsinu Eimir. Hjá þeim lærði ég að pressa buxur og strauja skyrtur. Ég lærði líka að brjóta saman lök og sængurver. Ég var hinsvegar farin að pressa mínar eigin stretsbuxur strax sem krakki. Það skyldi vera brot í buxunum áður en ég fór í skólann. Þetta voru svona buxur með bandi sem var smeygt undir skóinn.

Ég var að vinna hjá Eimi á þeim tíma sem klórþvegnar gallabuxur voru í tísku. Gallabuxurnar komu frá Hagkaup til okkar í klór og urðu við það mislitar. Þetta þótti ferlega flott. Sniðið var einsog pils, þröngar niður lærið og víkkuðu svo út. Við þurftum að pressa þær á eftir og þá sá maður hvað buxurnar voru illa sniðnar, snúningur í saumnum. Þegar ég fór að versla mér sjálf svona buxur þá passaði ég að mitt eintak væri rétt sniðið. Mér sýnist þetta snið vera að koma aftur í tísku núna einsog samfestingarnir.

Til Hveragerðis flutti ég árið 1975 og ætlaði mér að vera hérna í eitt ár en ég hef verið hérna síðan og börnin mín fjögur ól ég upp hérna í Hveragerðisbæ. Maðurinn minn fékk vinnu í rútuveseninu. Hann var aldrei heima hjá sér, alltaf að keyra. Ég vann um tíma í Kjörís og ég var gangavörður í grunnskólanum en hérna hjá Ási hef ég verið í 24 ár. Ég byrjaði í böðun, að baða heimilismenn hjá dvalarheimilinu Ás og tók svo lyfjavaktina með.

Ég færði mig yfir í þvottahúsið hjá Ási og var þar í fjögur eða fimm ár en hætti út af skrokknum. Það er ekki létt að vinna í þvottahúsi. Það er fjölbreytilegt en það þarf krafta til þess að hrista upp hálfblaut sængurver, maður er alltaf að vinna upp fyrir sig og ég fékk í axlirnar. Ef ég hefði verið yngri þá hefði þetta verið í lagi. Við þvoðum sængurverin á kvöldin og svo komum við morguninn eftir að þurrka en það var bara þurrkað til hálfs. Hálfblautt tauið er tekið úr vélinni og hrist svo það fari ekki í einn vöndul, endarnir eru klemmdir til þess að það fari jafnt í strauvélina. Við vorum líka með handklæðavél sem braut saman, þá leggur maður handklæðin á bandið og vélin sér um rest. Að auki þvoðum við og gengum frá fötunum af heimilisfólkinu.

Núna er ég komin í eldhúsið í Ásbyrgi hjá sama fyrirtæki. Hér er æðislegt að vinna. Ég mæti hálf átta og elda hafragrautinn og tek morgunmatinn saman fyrir heimilisfólkið. Þetta er líkamlega miklu léttari vinna en í þvottahúsinu. Við notum sjaldan stóra potta, það er aðallega þegar við sjóðum svið fyrir konudaginn sem ég þarf að lyfta þungum pottum. Við fáum sendan mat í hádeginu en undirbúum kvöldmatinn og reynum að vera búin að því klukkan tvö en þá fer ég heim.

Pabbi fékk MS sjúkdóm og bjó hjá mér í tuttugu ár en lést á heimili á Selfossi þar sem hann bjó undir það síðasta. Hann var duglegur að bjarga sér, hann var svo þver, vildi gera allt sjálfur, þótt að hann hafi verið klukkutíma að búa um rúmið sitt þá gerði hann það samt.

Ég hef verið gift mínum manni í 45 ár. Við erum bæði spordrekar og tölum og gerum mikið saman sem ég held að sé lykillinn að farsælu hjónabandi. Við eigum húsbíl og höfum stundað Kanaríeyjar í meir en tuttugu ár á veturnar. Á sumrin tökum við húsbíllinn og keyrum út á land.

Börnin fjögur dreifast yfir landið, eitt á Akureyri og annað í bænum og eitt í Hveragerði og eitt á Selfossi. Ég náði þeim öllum saman í Kanaríferð í vetur. Krakkarnir vildu vita hvað við værum alltaf að gera þarna. Allir komu, börnin, barnabörnin og tvö langömmubörn, en ég byrjaði svo ung að eiga börn.

Á Kanaríeyjum erum við að sleikja sólina, labba um, og fá okkur bjór. Láta hugann reika. Þurfa ekki að elda mat í hálfan mánuð. Það er gott að sleppa við það. Það eru svo margir íslendingar þarna á sama tíma og við. Maður er farin að kannast við mörg andlit þarna í Íslendinganýlendunni á Kanaríeyjum.“

Guðríður Eygló Valgeirsdóttir
Yfirumsjón með eldhúsi

Deila