Efling stéttarfélag

„Ég er frumbyggi úr Breiðholtinu“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er frumbyggi úr Breiðholtinu, ég flutti þangað tíu ára, sem sagt ein af fyrstu íbúunum. Þá var Breiðholtskjör í svona skúr og engin skóli og við fórum með skólabíl í bæinn í Austurbæjarskóla.

Hverfið var allt í byggingu og maður var stígandi á nagla hvert sem maður fór. Ég gekk í hús og seldi egg fyrir bóndann sem ég var í sveit hjá. Við bönkuðum upp á einum stað og Bessi Bjarna opnaði dyrnar og spurði: „hvort að við værum komnar með hænsnabú í Grýtubakka?“

Og fyrsta veturinn var farið niður í Blesugróf til að taka strætó í bæinn. Þá var þetta eins og í litlu þorpi, blokkirnar í Bakkahverfinu voru byggðar í kringum skólann og maður þurfti aldrei að fara yfir götu. Breiðholtskjör var Breiðholtsveldið, eigandinn var kóngurinn þarna fannst manni. Heima voru ekki miklir peningar og þegar mamma þurfti að skrifa þá sagði hún mér að fara á kassa númer þrjú og „fáðu skrifað hjá Röggu.“

Mamma vakti yfir sjúklingum á Landakoti og tók strætó í vinnuna í bæinn, alltaf á sama tíma og alltaf samferða sama fólkinu úr hverfinu. Þetta var svona lítið þorp og ef einhver var seinn í strætó þá fór samferðafólkið að hafa áhyggjur af honum: „Hvað ætlar hann að missa af strætó?“

Það var ekki reiknað með að ég færi í skóla eftir gagnfræðapróf og ég fór bara að vinna og borga heim. Ég átti mjög gott með að læra, en nám var bara ekki í boði og fáir í kringum mig sem fóru í skóla á þeim tíma. Átján ára fór ég að búa og eignaðist mitt fyrsta barn. Við hjónin leigðum í sjö ár íbúð hjá tengdó og síðan byggðum við í Selás. Þar bjuggum við í hálfkláruðu húsi, fyrst var ekkert bað, bara klósett, en svo kom þetta smátt og smátt. 26 ára hafði ég eignast þrjár dætur og í dag á ég sex barnabörn.

Þegar við vorum að byggja fengum við húsnæðislán í þrem hlutum, þetta var fyrir tíma íbúðalánasjóðs. Við fengum 50 þúsund krónur þegar húsið var fokhelt og sýndum fokheldisvottorð, hálfu árið síðar fengum við aðrar 50 þúsund krónur í viðbót og síðan aftur hálfu ári síðan 50 þúsund sem dugði fyrir bílskúrshurð.

Þegar ég missti manninn minn fór ég að hugsa mig til hreyfings, að ég ætti kannski að breyta til og gera eitthvað annað. Ég vann þá á tveim stöðum, í Norska sendiráðinu samhliða því að ég reka eigin veisluþjónustu. Ég tek enn eina og eina veislu en hingað kom ég fyrir ellefu árum, fyrst í eldhúsið og síðan gerðist ég aðstoðarkona iðjuþjálfa. Ég flutti mig líka um hverfi og bý hérna hinum megin við götuna og labba í vinnuna. Ég tók félagsliðann, það var svo gott að fara í nám, loksins að læra og það í heilt ár. Ég var í skólanum með pólskum konum sem voru svo duglegar, ein þeirra var vinna á næturvöktum og hitti aldrei neinn og kunni enga íslensku, en hún þýddi hvert einasta orð í náminu, það var ótrúlegt að sjá það.

Ég aðstoða fólkið hérna við allskyns handverk, og fer inn á deild og les dagblöðin, en stundum er erfitt að finna jákvæðar fréttir. Við erum með endurminningarstundir og þá fer ég inn á herbergin, þá er það gestgjafinn á herberginu sem býður upp á eitthvað og við rifjum upp gamla daga, það er oft notaleg stund. Það er notalegt að vinna með gömlu fólki. Maður er kannski orðin svona gamall sjálfur að hafa gaman að þessu.“

Guðrún Steingrímsdóttir
Félagsliði og aðstoðar iðjuþjálfi

Deila