Efling stéttarfélag

„Það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég ólst upp í Grafarvogi og útskrifaðist af stærðfræðibraut frá Verslunarskóla Íslands. Sumarið 2007 réð ég mig í sumarvinnu hjá Byr og þáði síðan fullt starf í þjónustuverinu. Á þessum tíma voru margir viðskiptavinir bankans vissulega reiðir og oft getur fólk verið dónalegra í gegnum síma sem ég fékk að finna fyrir og þess vegna segi ég alltaf að ég hafi verið stuðpúði fyrir sparisjóðinn á þessum fyrstu misserum eftir hrun.

Eftir þrjú ár í þjónustuverinu fékk ég nóg og vildi prófa eitthvað annað. Meðal annars fór ég í byggingarvinnu og stundaði smíði í kvöldskóla og í framhaldinu var mér boðið fullt starf hjá Minjavernd og tók þátt í að gera upp sögufræg hús eins og Gröndalshúsið, Franska spítalann á Fáskrúðsfirði og Gamla apótekið á Akureyri, við flugum norður á mánudögum og til baka á föstudögum. Þetta var eins og sjómennska, mikil fjarvera og ekki beint fjölskylduvænt.

Hjá Minjavernd voru þetta langir vinnudagar, allt í góðu með það en þetta var orðið of mikið og ég sagði upp. Ég var komin með fjölskyldu og barn og tími komin til að setja þau í fyrsta sæti, það er þessi þriggja og hálfs árs gamli sonur minn, ég vildi ekki missa meira af honum. Upphaflega hafði ég hugsað mér að vinna á leikskólanum hans. En Reykjavíkurborg er með þessa stefnu, að foreldrar mega ekki vinna á sama leikskóla og barnið þannig að ég tók hlutastarfi á Ösp sem er í göngufæri við heimili okkar og Holt sem er leikskólinn hans.

Ég byrjaði í hlutastarfi og tók síðan við fullu starfi á leikskólanum. Ég get leyft mér að vinna hérna af því að ég og konan mín eigum okkar eigin íbúð í Breiðholtinu. Á leikskólum borgarinnar fær enginn launahækkun á grundvelli reynslu eða frammistöðu. Sjálfur hef ég notið reynslu vinnufélaga minna af margra ára leikskólastarfi þeirra, reynsla sem hefur hjálpað mér í vinnunni en líka í mínu eigin pabbahlutverki og barnauppeldi.

Ég er 34 ára gamall, tveggja barna faðir, með þriggja og hálfs árs gamlan dreng og nýfætt stúlkubarn, ég er með sömu laun núna og ég hafði sem reynslulaus háskólanemi í sumarvinnu hjá banka fyrir 10 árum. Fyrir fullt starf er ég með 250 þúsund krónur í laun eftir skatt, hinsvegar er ég í miklu mikilvægara starfi hérna á leikskólanum en hjá bankanum. Bara þetta segir mér að það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi.“

Halldór Fannar Halldórsson
Starfsmaður á leikskóla

Deila