Efling stéttarfélag

„Ég þarf að vera í tveim vinnum af því að leikskólalaunin duga ekki til þess framfleyta einni manneskju á leigumarkaði“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Eftir þrjú ár í FNV fyrir norðan fluttist ég af Króknum aftur suður og réð mig á næturvaktir í Nettó en leið ekki vel þar, ég missti alla vini mína. Mamma var matráður á Fálkaborg og ég þekkti alla hérna og fyrrverandi leikskólastjórinn bauð mér vinnu þegar hún sá hvað næturvinnan var að fara illa með mig. Þannig byrjaði ég í fullu starfi, fyrst á miðdeildinni og var þar næstum því í eitt ár.

Eftir árið fór ég svo í hússtjórnarskólann í Reykjavík í sex mánuði, það gerði mér gott. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Það kom mér á óvart hvað ég lærði mikið, ég lærði að sauma og saumaði jólakjólinn minn, lærði næringar- og vörufræði, lærði að þrífa og svona beisík atriði fyrir gamaldags húsmæður. Ég flutti meir að segja inn á heimavistina og kynntist fullt af skemmtilegu fólki.

Ég byrjaði síðan aftur á leikskólanum í desember í fyrra, en þá fór ég á yngstu deildina á Arnarborg en það er búið að sameina þessa tvo leikskóla, Arnarborg og Fálkaborg í Breiðholti. Ég vinn átta tíma á dag, eins og venjulegur starfsmaður, en fæ að mæta og klára daginn þannig að leikskólavinnan stangist ekki á við hina vinnuna mína.

Ég þarf að vera í tveim vinnum af því að leikskólalaunin eru ekki nóg til þess framfleyta einni manneskju á leigumarkaði. Ég leigi ein litla íbúð, ég á bíl og þarf að lifa. Fyrir 230 þúsund krónurnar sem er kaupið á leikskólanum myndi ég ekki hafa það af út mánuðinn. Ég fer héðan í hina vinnuna mína sem er á Reebook líkamsræktarstöðinni, þar sem ég passa börnin í barnagæslunni til kl. 19.30 á kvöldin og hálfan laugardaginn.

Ég hef aldrei hoppað húrra fyrir þessum launum, og þar birtist pirringurinn hjá mér, það er yfir laununum, ég vil fá betur borgað af því að ég legg mig alla fram við að vinna vinnuna mína og ef launin væru boðleg þá gæti ég hugsað mér að taka leikskólakennarann. Það er litið á okkur eins og við séum bara eitthvað fólk í einhverju húsi að passa börn en við erum að gera svo miklu meira. Ég skil ekki af hverju er ekki hægt að hækka okkar kaup eins og hinna. Þú getur ímyndað þér hvað myndi gerast ef við færum í verkfall, samfélagið færi á hliðina.

Þetta er yndislegt starf, dagarnir eru auðvitað misjafnir, maður veit aldrei hvernig hann fer, það stjórnast mjög mikið af því hvernig börnin koma í skólann og í hvernig skapi þau eru þann daginn.

Ég held að fólk geri sér enga grein fyrir því hvað við erum að gera í vinnunni, ég er oft spurð hvort það sé ekki kósý að vinna á leikskóla. Fólk heldur bara að við sitjum við borð og tjillum og síðan leggjum við okkur í hádeginu. Við erum með börnin sem taka við af okkur, fólk framtíðarinnar og við erum að kenna þeim og undirbúa þau fyrir lífið.

Ég ætla að klára stúdentspróf þegar ég veit hvað mig langar að læra í framhaldinu, en það yrði líklega að vera fjarnám, ég hef ekki efni á því að minnka við mig vinnu. Ég gæti hugsað mér að flytja út á landi, ég á ættingja á Seyðisfjörð og mér líður svo fjarska vel þar. En ég hef það líka gott hérna og er ekkert að flýta mér neitt, ég lifi bara einn dag í einu.“

Helga Jóna Kristmundsdóttir
Starfskona á leikskóla

Deila