Efling stéttarfélag

„Við við krakkarnir og fangarnir unnum hlið við hlið“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég fer heim á Eyrabakka í öllum fríum að hitta fólkið mitt, fjölskyldan býr þar, foreldrar mínir og bræður, öll nema ég. Yngsti bróðir minn prófaði að flytja í bæinn en hann var fljótur að fara aftur heim á Bakkann, hvergi betra að búa en við sjávarsíðuna.

Ég var svo heppin að alast upp á Eyrarbakka og klára Grunnskólann þar. Ég hefði svo auðveldlega geta orðið fórnarlamb eineltis, en ég fæddist með skarð í góm og fór í mína fyrstu aðgerð þriggja mánaða gömul og ég var orðin 18 ára þegar ég fór í síðustu aðgerðina. Þetta hefur auðvitað litað líf mitt, en ég fékk skjól í þessu litla samfélagi. Sem betur fer erum við ólík og engin eins, en það er ekki sjálfgefið að lenda ekki í einelti.

Ég byrjaði auðvitað að vinna í fisk á Bakkanum fyrir fermingu, ég vann á sumrin og á veturna fengu krakkarnir frí í skólanum þegar það vantaði fólk í frystihúsið. Föngunum var meir að segja sleppt af Litla Hrauni og við unnum hlið við hlið, fangarnir og krakkarnir, þegar ég var um það bil 11 eða 12 ára. Þetta voru varla forhertir glæpamenn eins og þessir sem eru inni í dag.

Á sumrin verkaði ég humar og eftir grunnskóla og ég varð eldri réð ég mig í fulla vinnu í frystihúsinu. Eina nóttina flutti frystihúsið á Þorlákshöfn og þá ákvað ég að gera eitthvað nýtt og fór til Reykjavíkur og sótti um starf í eldhúsinu á Borgarspítalanum, það sóttu margir um en ég var valin og var hjá þeim næstu tíu árin. Samstarfsfólkið á spítalanum hvatti mig til að fara í nám og ég fór í kvöldskóla í Matartækninámi við FB og kláraði það.

Ég hef alltaf unnið mikið og vann í pylsuvagninum við Vesturbæjarlaugina ásamt eldhússtarfinu á spítalanum til þess að fjármagna kaup á íbúð. Ég á mér góða fyrirmyndi í lífinu, það er kona sem hefur kennt með gefast ekki upp og einkunnarorð mín eru: „Ég skal, ég vil, ég get!

Ég hætti á Borgarspítalanum og var að vinna á leikskóla í eitt eða tvö ár þegar ég rakst á núverandi yfirmann minn í ræktinni. Ég kannaðist við hana frá Borgarspítalanum en hún bauð mér að koma hingað yfir í eldhúsið á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni, sem var þá aðeins tveggja ára gamall vinnustaður. Ég þáði starfið og byrjaði hérna 1. Desember fyrir 15 árum. Þetta er full staða, átta tímar á dag. Við mætum á morgnanna, gerum morgunmatinn klárann, eldum hádegismatinn og stundum bökum við með kaffinu eða undirbúum morgundaginn fyrir næsta dag. Fyrir utan eldhúsvinnuna þá tek ég aukavaktir í þrifunum á þjónustuíbúðunum hérna og stundum hef ég verið með þriðju vinnuna.

Engin verk eru leiðinleg af því að það þarf alltaf að gera þau, og þá er gengið til verks og þau kláruð. Mér finnst mjög gaman að þjóna fólki, að elda er að þjóna öðrum. Ég man engar sérstakar uppákomur í eldhúsinu, en maður verður að passa að tvísalta ekki hafragrautinn og ekki missa sósuna í gólfið.

Ég er í gönguhóp, ég hef gengið um Ísland og utan landsins. Ég hef farið til Indlands og gengið í Klettafjöllunum í Kanada. Ég er menningarsinnuð og leikhúsaðdáandi, við erum nokkrar konur sem vinnum hérna sem höldum hópinn og förum reglulega í bíó og leikhús saman.

Við eigum alveg frábæra leikara á Íslandi, en ég þekki ekki nöfnin á þeim lengur þeir eru orðnir svo margir. Ég hef farið til London í leikhúsferð, ég fór í Óperuna og á söngleikinn Lion King, það var mjög áhrifaríkt. Ég fór líka að sjá Mamma Mía í Borgarleikhúsinu, ég fór með 8 ára bróðurdóttur minni, undir lokin söng Helgi Björnsson lag og þá leit ég á frænku mína sem var hágrátandi, ég spurði hana: „Er ekki allt í lagi?“ og hún svaraði grátandi: „Jú en þetta er svo fallegt.“

Það blundar alltaf í mér að fara aftur á Bakkann það er mikil uppbygging þar í augnablikinu og mig langar að byggja mér lítið hús. En maður veit aldrei.“

Hjördís Guðmundsdóttir
Matartæknir

Deila