Efling stéttarfélag

„Ef snjóar þarf ég helst að hafa smá yl í bílnum fyrir farþegana“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég keyri alltaf eins og strætóbílstjóri. Þegar ég er ekki á vakt að keyra á mínum eigin fólksbíl þá kíki ég ósjálfrátt inn í öll strætóskýlin sem ég fer fram hjá til þess að athuga hvort að ég hafi nokkuð skilið einhvern eftir.

Ég mæti klukkan sex í vinnuna og fæ mér kaffi með félögunum áður ég byrja. Við erum um það bil 36 sem mætum á þessum tíma inn í Klettagörðum og svo erum við að týnast út eitt af öðru í vagnanna okkar. Ef það snjóar þá þarf ég að hafa bílinn klárann og helst smá yl í honum fyrir farþegana og er tilbúin að fara af stað klukkan hálf sjö. Við megum ekki lenda í svo miklu spjalli að við gleymum okkur í gæðastund eins og þetta er kallað á leikskólunum.

Ég var bóndi í 25 ár á Erpsstöðum. Ég get ekki hugsað mér betri vinnu en búskapinn. Daglaun að kvöldi. Þú sérð á útliti dýranna og á túnunum hvað þú lagðir sjálfur í þessa vinnu, ofbitinn úthagi eða gróðursæld. En ég gerði þetta ekki einn við vorum alltaf tvö í þessu og börnin komu á sumrin þegar þau voru ekki í skóla.

Ég var hins vegar orðin fimmtugur þegar ég stóð frammi fyrir því að þurfa að breyta í lausagöngufjós og stækka við mig og hanga á þessu sem ég gat ekki hugsað mér. Krakkarnir mínir höfðu ekki áhuga á að taka við búskapnum. Dóttir mín er í útgerð, yngri dóttirin er líffræðingur og sonur minn í rafvirkjun, þau fóru í annað. Ung hjón keyptu jörðina og þeim gengur svo ljómandi vel og gaman að sjá hvað þetta er allt í miklum blóma.

Kunningi minn úr hestunum sagði mér frá því að það vantaði vaktmann á Vífilsstaði og þangað fór ég og starfaði í sjö ár. Síðan var ég önnur sjö ár á lager hjá dráttavélasölu en var sagt upp þegar dróst saman í rekstrinum í kjölfarið af hruninu. Þá fór ég á atvinnuleysisbætur í tvo mánuði og hélt að það væri fínt, ég fór að smíða og mála. En svo hrundi tilgangsleysið yfir mig, þetta var alveg skelfilegt og ég tók rútuprófið og byrjaði hjá Kynnisferðum í ágúst 2010 og hef keyrt strætó síðan.

Ég var lengst af að keyra 12 til 13 tíma langar vaktir á tveir, tveir, þrír vaktarkerfinu. Þetta eru langar vaktir og það er sem betur fer verið að vinna í því að leggja þetta fyrirkomulag niður og stytta vaktirnar. Það kom tvisvar fyrir að ég sofnaði við stýrið þegar ég var í kvöldkeyrslu. Ég var skoðaður og greindur með kæfisvefn, ég var orðin þannig að ég gat sofnað hvar sem var, margra ára uppsafnað svefnleysi. Núna sef ég með grímu, allt annað líf og vinn frá sex til tólf fimm daga vikunnar. Ég skila 80 prósent vinnuframlagi sem gefur mér þessar 240 þúsund krónur eftir skatt.

Ég er orðin 71 árs og er að bíða eftir því að þessi króna á móti krónu skerðing verði aflögð, að ríkisstjórnin lagi þetta og að ég geti lifað af ellilífeyrinum. Eins og er fæ ég 130 þúsund í lífeyrisgreiðslur en missi tæplega helming ef ég hætti að vinna og fer á ellilífeyrinn, 45% og fengi aðeins í kringum 300 þúsund. Ef þetta verður lagað fæ ég hins vegar samtals 350 þúsund sem er viðunandi.

Í útvarpinu var heilbrigðisráðherra að fjalla um frumvarp um fæðingarof. Ég var að segja við félaga minn að það ætti að koma á öldrunarrofi, ég veit ekki við hvaða aldur, þau gætu sett reglugerð um það. Gamlar ær og kýr sem hafa skilað sínu eru settar í öldrunarrof og sendar í sláturhúsin. Þetta myndi bæði létta á heilbrigðiskerfinu og öldrunarheimilunum.

Hjá Kynnisferðum er margt gott, þau gera vel við okkur, flottar árshátíðir með fordrykk og starfsmannaferðir á spennandi staði. En við þurfum alltaf að vera vakandi yfir launaseðlinum. Til dæmis fengum við jólagjafir, fyrst fékk ég 70 þúsund krónur og næsta ár lækkaði upphæðin niður í 50 þúsund og síðast fékk ég 30 þúsund krónur. Í framhaldinu komumst við að því að það var búið að klípa af orlofspeningunum og yfirvinnunnutímunum okkar, það má því með réttu segja að jólagjöfin hafi eftir allt saman verið okkar eigin peningur. Trúnaðarmaðurinn okkar fór í málið og ég fékk endurgreiddar 240 þúsund krónur eftir skatt, þrjú ár aftur í tímann á meðan félagar mínir fengu 350 þúsund krónur endurgreiddar eða þau sem vinna meira en ég.

Ég vildi fá afsökunarbeiðni frá fyrirtækinu og fór fram á það en fékk það aldrei sem mér finnst skrýtið af því að ég þarf að biðjast afsökunar við farþega mína ef ég sjálfur geri eitthvað vitlaust. Ég og bara allir þurfa að biðjast afsökunar ekki bara í strætó heldur alls staðar í lífinu þegar okkur verður á.

Stimpilklukkan! Það var eitt sem fyrirtækið okkar lét útbúa. Sem sagt forrit sem við fengum í símann okkar þar sem við gátum stimplað okkur inn og út. Einhver glöggur komst að því að við borguðum með okkur í hvert sinn sem við notuðum stimpilklukkuna, við greiddum fyrirtækinu 36 krónur á dag. Trúnaðarkonan okkar fór í málið og þá fengum við að heyra að hún væri allt of mikill Þjóðverji í sér að eltast við þessa smá aura en á endanum lögðu þau þetta stimpilklukkukerfi niður og ég fékk að lokum 7000 krónur endurgreiddar.

Ég gæli við þá hugmynd að við bílstjórarnir gætum tekið okkur saman og keypt strætódeild Kynnisferða. Við ættum að geta fengið lífeyrissjóðslán til þess að kaupa hlutann eins og aðrir. Mér finnst það bæði sanngjarnt og augljóst. Ég var eitt sinn bóndi og ég veit að maður vinnur betur að sínu eigin þótt ég þykist vita að við bílstjórarnir sinnum starfi okkar vel hjá Kynnisferðum. Fyrir liðsheildina myndi það skila meiru og ég tala ekki um sjálfsvirðinguna. Það er er niðurlægjandi að vinna fyrir einhvern sem hlustar ekki á mann og ypptir öxlum þegar maður bendir á villur í launaútreikningnum.

Þegar ég er að keyra einn þá fer hugurinn að reika og þá finnst mér stundum við strætóbílstjórarnir vera þessir galeiðuþrælar þarna niðri í lestinni að róa.

En núna þarf ég að fara heim og halla mér fyrir karlakóræfinguna hjá Gömlum Fóstbræðrum í kvöld. Það gefur mér mikið að syngja með þeim og í trúnaði sagt, þá erum við bestir.“

Hólmar Á. Pálsson
Strætóbílstjóri

Deila