Efling stéttarfélag

„Þegar við lentum á Keflavíkur flugvelli spurði ég sjálfan mig: hvert er ég kominn?“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég kem frá norðaustur Tælandi. Mamma giftist Íslending, flutti til Íslands og réði sig í saumaskap hjá 66 gráður Norður. Seinna vann hún á Landsspítalanum þangað til að bæði hné gáfu sig og í dag er hún öryrki.

En aldamótaárið 2000, þegar mamma hafði verið á Íslandi í tvö ár og komið sér fyrir, þá sótti hún mig átján ára gamlan til Tælands. Mér brá þegar við lentum í Keflavík. Veðrið var leiðinlegt, kuldi og rok og ég hafði aldri séð neitt þessu líkt áður.

Ég vann í eldhúsinu á Landsspítalanum í fimm ár en flutti mig hingað yfir á öldrunarheimilið og hef aðstoðað hérna í eldhúsinu síðastliðin fjögur ár. Í vinnunni borða ég íslenska matinn sem er á boðstólum en heima hjá mér eldum við fjölskyldan tælenskan mat.

Dagvinnan mín er í eldhúsinu en á kvöldin þríf ég skrifstofuhúsnæði. Eftir níu ár í eldhúsi ætla ég loksins að söðla um. Ég hef ráðið mig hjá strætó og byrja á morgun. Það verður tilbreyting að prófa eitthvað nýtt og launin þar eru betri út af vaktaálaginu. Ég hef tekið eftir því að launin eru misjöfn á vinnumarkaðnum og mín laun eru frekar lág miðað við sambærileg störf annars staðar.

Við keyptum íbúð í Grýtubakka fyrir tíu árum síðan og börnin mín tvö eru í Breiðholtsskóla og æfa bæði sund. Ég gæti vel hugsað mér að eignast hús í Tælandi einhvern tímann í framtíðinni.

Konan mín hefur unnið hérna með mér í eldhúsinu í mörg ár. Við keyrðum saman í vinnuna og fórum saman heim að sækja börnin og elda fyrir þau. Það er álag fyrir hjónabandið að vera alltaf saman. Þetta breytist núna þegar ég fer að keyra strætó, ekki nema hún taki sér far með mínum strætó í vinnuna.“

Jathuprorn Premviru
Aðstoð í eldhúsi í níu ár

Deila