Efling stéttarfélag

„Loksins ég fann þig“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég var 25 ára gömul þegar ég kom til Íslands, það er langt síðan, árið 1988. Ég var ung að leita að ævintýrum og lenti á Íslandi, svona er lífið. Ég hafði lokið garðyrkjunámi í Thailandi en þetta var eins og að koma á tunglið að koma til Íslands, gróðurfarið hérna er svo gjörólík því sem ég átti að venjast heima. Ég vann aldrei við mitt fag og var lengi með heimþrá en það hefur lagast með tímanum. Núna finnst mér best að búa á Íslandi, ég elska náttúruna, vatnið, vinnuna og manninn minn.

Fyrir tveim árum síðan þá fór ég út á skemmtistað með vinkonu minni. Við sátum tvær við borð en hún fór á klósettið og skildi mig eina eftir. Á næsta borði sat maður sem var uppáklæddur, voða flottur, hann sat líka einn við borð en félagi hans hafði yfirgefið hann og farið á dansgólfið. Þarna sátum við ein við sitthvort borðið og horfðum á hvort annað, síðan stóð hann upp, gekk yfir til mín og bauð mér upp í dans og síðan höfum við verið saman.

Ég hef unnið við fiskflökun hjá Granda í sex ár. Hérna er margt gott, þeir hugsa vel um fólkið sitt. Til dæmis fáum við frían morgunmat og kaffi og hádegismaturinn er mjög ódýr. Við fáum líka strætókort og kort í líkamsrækt sem ég nota ekki, af því ég hef ekki tíma til þess.

Ég vinn mikið og er lúin eftir átta tíma vinnudag. Stundum mætum við klukkan sex á morgnanna, þegar klára þarf að verka fiskinn og ljúka við pökkun. Það þarf að verka hráefnið á meðan það er ferskt, maður þarf að vera snöggur að vinna fiskinn strax og koma honum út áður en hann skemmist.

Hérna er það sem kallast hópbónus og það þýðir að allir fá eitthvað fyrir sitt framlag. Sumir eru voða fljótir að vinna og aðrir eru rólegri, en allir í salnum fá hlut í afköstunum. Að vísu fá byrjendurnir lægri hópbónus, þeir eru neðst, á meðan þeir sem hafa unnið hérna í tíu ár eru á hæsta bónus. Ég er enn þá bara á fimm ára bónus. Verkstjórarnir fylgjast með og setja þau okkar sem erum fljót að verka fiskinn og góð í nýtingu í að flaka og svo eru aðrir sem eru duglegri að pakka sem fara í pökkun. Gamla kerfið var öðruvísi og engin hópbónus, og ef þú nýttir illa fiskinn og hentir miklum afskurði þá fékkst þú engan bónus og þar að leiðandi lélegra kaup og fórst grátandi heim, skipti engu máli hvað þú flakaðir mikið, kannski fimmtíu kíló. Þetta kallast nýtingar, að nýta allt sem hægt er af fiskinum þannig að ekkert fari til spillis.

Hérna eru aðallega konur í flökun, konur eru með fíngerðari hreyfingar, það er flóknara fyrir karlmenn að skera og þeir eru því meira að bera kassa og þunga hluti. Við erum einhvers staðar á milli 100 – 200 manns í salnum, þetta er stórt fyrirtæki og engin spurning, hérna ætla ég að halda áfram að vinna og vonandi verður þetta minn síðasti vinnustaður.

Ég og maðurinn minn eigum bæði uppkomin börn af fyrri samböndum, og litlar skyldur og komin á þann aldur að við getum notið lífsins. Hann kennir kvikmynda- og menningarsögu og við förum mikið á menningarviðburði, tónleika og bíó, og reglulega í Hörpuna, ég þéna ekki vel en það gerir hann aftur á móti og kaupir alltaf bestu sætin fyrir okkur.

Ég eignaðist draumaprinsins minn, við erum voða góð við hvort annað. Þegar eitthvað kemur upp á þá leysum við málið og reynum að endurtaka ekki sömu leiðindin og ef ég fer í fýlu þá kemur hann mér til að hlæja.

Maður á aldrei að gefast upp, þótt að lífið sé erfitt, halda áfram og þú munt uppskera á endanum. Ef þú gefur eitthvað gott út í lífið þá færðu eitthvað gott til baka. Það koma alltaf erfið tímabil í lífi sérhvers manns. “Loksins ég fann þig” eins og Björgvin Halldórsson syngur, það er uppáhaldslagið mitt.“ Ég leitaði lengi að hamingjunni og fann hana.“

Katrin Phumipraman
Fiskverkunarkona

Deila