Efling stéttarfélag

“Ég hef verið í þessu strögli allt lífið„

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„14 ára byrjaði ég í fiskvinnslu, um tíma vann ég á Landakoti, svo hjá Nóa Síríus og í átta ár hjá Póstinum, 7 ár hjá Hagkaup, þrjú ár í efnalaug og var samtímis á hjúkrunarheimilinu Eir til þess að láta enda ná saman. Ég hef unnið hjá Granda, og fleiri hjúkrunarheimilum í Reykjavík. Ég hef verið í þessu strögli allt lífið, sem skánaði þegar ég vann hjá efnalauginni, góður eigandi og betra kaup en ég hafði vanist, stundum vann ég frá 8 til 18 í efnalauginni og tók vaktir á Eir með, sem var ágætis uppbót þó það hafi aðeins verið 20% vinna. Ég gat líka leyft mér meira þegar ég vann hjá Granda, þar vann ég bæði í eldhúsinu og þvottahúsinu, byrjaði sex á morgnanna og vann til sjö á kvöldin, en svo fóru þau að taka á því, þeim fannst ég vinna of mikið.

Ég á tvo drengi sem ég hef alltaf verið ein með, það eru tólf ár á milli þeirra. Elsti strákurinn minn er 35 í dag og hinn 23 ára, og ég var svo heppin að tveir bræðursynir mínir eru einmitt árinu eldri en strákarnir mínir, og fötin gengu á milli, pössuðu á mína ári síðar þegar frændurnir uxu upp úr þeim. mamma bjargaði mér líka þegar ég náði ekki endum saman.

Eiginlega var þetta erfiðast þegar strákarnir voru í skóla, stundum átti ég ekki fyrir mat handa þeim, það var sérstaklega slæmt undir mánaðarmót. Í Ölduselsskóla varð eldri strákurinn minn fyrir einelti, en það var enga hjálp að fá frá skólanum og skólastjórinn benti mér bara á að tala við foreldra stúlkunnar sem var gerandinn, ég þurfti að láta strákinn minn skipta um skóla, hann átti lengi erfitt andlega, en hann er mjög góður í dag. Ég er mjög hreykin af honum, hann er bæði að vinna á sambýli og er í námi í háskólanum.

En það var eiginlega stjúppabbinn sem atti mér út í íbúðarkaupin, hann var sífellt að segja að ég gæti aldrei keypt mér neitt, en ég vildi bara sína honum að ég gæti það samt, þar kom þrjóskan til, ég keypti litla íbúð hjá verkamannabústöðum í Breiðholtinu árið 1985, sem bjargar mér gjörsamlega í dag, að eiga þessa íbúð. En það var mikið strit, og þar kom mamma til hjálpar aftur, hún gætti drengjanna minna á meðan ég vann, en fyrir vikið missti ég af svo miklu sá eldri var að vaxa úr grasi.

Ég var fimmtug þegar ég fékk að vita að ég ætti annann pabba. Ég var rosalega fegin, afþví stjúppabbi minn fór illa með mig, hann var ekki góður maður, allavega ekki gagnvart mér. Ég bankaði upp á hjá blóðpabba mínum og þegar hann sá mig þá sagði hann:„Ætlar þú að segja mér að þú sért dóttir mín? Þú ert alveg einsog hún mamma.“ Ég fór samt í DNA próf og þá var það á hreinu. Ég eignaðist á þeim degi sex systkini í viðbót við hin sex hjá mömmu.

Eina skiptið sem ég fékk virkilegt hrós, var frá sálfræðing, það var þegar sonur minn fékk aðstoð á Bugl, sálfræðingurinn sagði: „Þú ert rosalega dugleg og sterk að komast í gegnum þetta allt saman á eigin spýtur. Strákurinn minn segir í dag að hann hefði ekki verið það sem hann er í dag heill og lifandi nema fyrir mig.“

Núna er ég skyndilega atvinnulaus og er alveg ómöguleg, er ekki vön þessu, hélt ég væri að hrynja, en fór reyndar að mála hérna hjá mér. Ég er á krossgötum að bíða hvað gerist en mér var sagt upp og málið er í ferli. Yfirmaðurinn þoldi mig ekki frá fyrsta degi, henni var alltaf í nöp við mig. Ég gagnrýndi vinnubrögðin, hvernig það var komið fram við heimilsfólkið. Mér finnst ömurlegt þegar maður getur ekki sagt sína meiningu á vinnustað, að maður getur ekki frjáls um höfuð strokið.

Ég hef verið allt mitt líf á vinnumarkaðnum í erfiðisvinnu og mér hefur aldrei verið sagt upp neinni vinnu, þannig að þetta kom mér verulega á óvart. Ég get varla verið svona slæmur starfsmaður afþví að það var alltaf verið að kalla á mig í aukavinnu. Ég vann 80 prósent vaktavinnu, um kvöld og helgar og fékk um það bil 260 þúsund og síðan tók ég aukavaktir til þess að ná endum saman, og fékk þá stundum 320 þúsund krónum í vasann en aldrei meira.

Það sem ég hef lent í á ævinni er reynslubankinn minn. Ég myndi ekki vilja hafa farið í gegnum lífið án þess að öðlast reynslu. Mamma sagði alltaf: „Lífið er ekkert nema skóli.“ Ég er sammála henni en hjá mér hefur þetta verið löng skólaganga.

Ég var alltaf með svo miklar áhyggjur sérstaklega þegar ég var ung með strákana litla, þessum kvíða fylgdi vöðvabólga og magasár, en það hefur lagast. En sonur minn sem er ungur, hann er líka með áhyggjur af öllum heiminum og ég sagði við hann, vaknaðu bara um morguninn og hugsaðu bara um daginn í dag. En hann svaraði þessu: „Mamma getur þú ímyndað þér að ég geti það?“

Kristjana Brynjólfsdóttir
Verkakona

Deila