Efling stéttarfélag

„Kraninn þarf að vera frjáls í rokinu“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég þarf að gæta þess að taka kranann úr bremsu þegar ég fer heim á kvöldin. Hann þarf að vera frjáls í rokinu, annars getur vindurinn eyðilagt vélina og bremsuna. Ég frétti af einum krana sem fór á hliðina á Íslandi fyrir einhverju síðan, en ég veit ekki ástæðuna.

Ég vinn annars vegar á turnkrana, þar sem ég sit uppi í húsi og stýri og hef yfirsýn yfir byggingarsvæðið og hins vegar á sjálfreisandi krana, þar sem ég er á jörðinni og stýri krananum með fjarstýringu og hef litla yfirsýn. Þú ert kannski að lyfta þungum hlutum og færa þá, og sérð ekki neitt og það getur verið hættulegt.

Turnkranar eru öruggari og yfirleitt notaðir í byggingarvinnu í Póllandi en hérna er meira um sjálfreisandi krana. Það er fleira sem er ólíkt með kranavinnu í löndunum tveim, í Póllandi er alltaf sami maðurinn á krananum og þú skrifar upp á það þegar þú færð vinnuna, að enginn annar vinni á honum. Þetta er öryggisatriði, því ef það eru margir menn að sjá um sama kranann þá gæti þér frekar yfirsést eitthvað auka hljóð sem væri merki um vélarbilun, en þannig gerast slysin. Annað sem er öðruvísi hérna er vindurinn, hann tekur í kranann, og í Póllandi er hætt að vinna við 15 metra á sekúndu og allir fara heim. Hérna er yfirleitt miðað við 18 metra á sekúndu og við höfum reynt að halda áfram í allt að 20 metra á sekúndu. Ef við hættum þá horfir yfirmaður okkar á kranana á byggingarsvæðinu við hliðin á þar sem enn þá er verið að vinna. En þetta er hættulegt, ef það verður slys, þá ertu kannski búin að drepa mann.

Ég hef þriggja og hálfs árs reynslu á minni krana, ég var kranamðaur í Póllandi og Danmörku og hef verið á Íslandi í sex mánuði. Ég fylgist með pólskri feisbúkksíðu um krana, þar sem fólk skiptist á reynslusögum. Það gerðist í sumar í 40 stiga hita í Póllandi, að það þurfti að sækja mann upp í krana og flytja hann niður í hylki, hann var að deyja úr hita og komst ekki niður sjálfur, þetta er gallinn á turnkrönum, þú ert óvarinn fyrir veðrinu.

Ég vildi fara til Noregs en vinkona mín vildi fara til Íslands. Atvinnumiðlun í Póllandi bauð mér vinnu á krana og Ísland varð fyrir valinu. Ég spurði hvort að það væri turnkrani og þeir sögðust halda það en ég var ráðin í gegnum íslenska starfsmannaleigu og var settur á sjálfreisandi krana og í almenna byggingarvinnu við Borgartún. Mér var sagt upp eftir tvo mánuði, mér finnst það bara fyndið núna en mér var alls ekki skemmt þegar það gerðist. Ástæðan var sú að ég var beðinn um að flytja glugga en ég leyfði mér að fara á klósettið áður en ég hófst handa og það fór í taugarnar á þeim. Ég er mjög ánægður að vinna beint undir verktaka en ekki í gegnum starfsmannaleiguna í dag.

Ég og kærastan fundum krúttlega íbúð í Hafnarfirði og ætlum að búa hérna áfram. Það er erfitt að finna íbúð í Reykjavík og ef þú finnur íbúð þá eru 200 aðrir með augastað á henni líka. Ég leigði í byrjun herbergi í gegnum starfsmannaleiguna og við bjuggum þar tvö og borguðum 150 þúsund í leigu. Ég borgaði líka 15 þúsund fyrir afnot af bíl sem ég og þrír aðrir verkamenn skiptum með okkur en ég veit ekki hvað starfsmannaleigan tók mikið í sinn hlut af tímakaupinu mínu.

Hérna er ég með 2.300 á tímann í dagvinnu og um helmingi meira í eftirvinnu, ég vann 300 tíma í síðasta mánuði. Við vinnum sex daga vikunnar og stundum lengist vinnudagurinn í annan endan, einsog þegar ég þarf að flytja steypumótin, af því að steypan er á leiðinni og allt þarf að vera klárt og ekkert má bíða. Þá erum við stundum að vinna frá klukkan hálf átta á morgnanna til sjö eða átta á kvöldin.“

Maciej Kiszka
Kranamaður á byggingarsvæði

Deila