Efling stéttarfélag

„Pabbi er kokkur og bróðir minn er kokkur og ég ætla að verða kokkur“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

“Á Íslandi er svo klikkað veður alltaf eitthvað nýtt í gangi, snjór, sól eða rigning og stundum allt þetta á sama tíma. Á Kúbu er veðrið alltaf eins. Ég fór heim á síðasta ári, það var svo heitt að ég fór í sturtu þrisvar á dag. Ég sem er fæddur á Kúbu og gat spilað fótbolta og hafnarbolti án þess að finna fyrir hitanum, en núna hef ég líklega verið of lengi á Íslandi, ég flutti hingað til landsins fyrir fimm árum.

Á Kúbu tekur maður ekki áhættuna að tala við útlendinga af því lögreglan fylgist með því að Kúbverjar séu ekki að blanda geði við útlendinga og þar þekkti ég nánast bara Kúbverjar. En á Íslandi hef ég kynnst fólki frá öllum heiminum, frá Póllandi, Íslandi, Kína og Filippseyjum og Portúgal. Ég á líka margar vini sem ég eignaðist í Tækniskólanum í íslensku fyrir útlendinga, vinir mínir sem eru spænskumælandi einsog ég og eru frá Spáni, Colombíu og Equatorial Guinea sem er í Afríku.

Sjálfur er ég frá Havana, og kom hingað með mömmu og yngri bróður mínum sem búa á Íslandi með stjúppabba mínum, á meðan eldri bróðir minn og pabbi búa á Kúbu. Ég sakna fjölskyldunnar minnar, og mest ömmu minnar sem er 78 ára. Síðast þegar ég fór heim í heimsókn komu allir til ömmu, öll fjölskyldan og allir vinir mínir, allir að spyrja hvernig gengi á Íslandi, hvernig land þetta væri? og ég þurfti að kenna þeim hvernig maður heilsar og segir „Góðann daginn og Hæ“ og hvernig maður segir: „Hvað segir þú gott?“ á Íslensku og síðan héldum við partý og við dönsuðum langt fram á kvöld. Einu sinni töluðum við íslensku saman heima hjá ömmu, ég og bróðir minn, við vorum að plana eitthvað sem amma átti ekki að komast að, við ætluðum að koma henni á óvart en þá varð hún alveg brjáluð og bannaði okkur að tala íslensku.

Ég starfa hérna í eldhúsinu á Cocina Rodrígues í Gerðuberg hálfan daginn og hálfan daginn stend ég vaktina á Noodle Station, þar sem ég hef unnið í fjögur ár. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ekki vera í fullu starfi á Noodle station og kom hingað fyrir ári síðan. Ég var farin að sakna þess að tala ekki spænsku, en vinur minn vinnur hérna og hérna eru vinnufélagar mínir allir spænskumælandi. Mér finnst kokkastarfið spennandi og gott að vera hérna að því hér læri ég helling. Á morgun koma 120 manns í mat, þá finnst mér skemmtilegast, sérstaklega þegar það er alveg brjálað að gera.

Mér finnst mest gaman að elda mat eins og San Gachoso, sem er þessi Dóminíska kjötsúpa. Evelyn sem er rekur staðinn kom með oregano krydd í súpuna sem vex í garði ömmu hennar í Dómíníska Lýðveldinu. Evelyn hefur líka kennt okkur að búa til kryddblöndur og fólk er að spyrja:„ Hvaða krydd er í matnum?“ En það er leyndó og við köllum það Evelynkrydd. Evelyn er mjög góður kennari og þetta er besti vinnustaður sem ég hef kynnst afþví hún ber virðingu fyrir starfsfólkinu.

Pabbi er kokkur og bróðir minn er kokkur og ég ætla að verða kokkur. Þegar ég opna veitingahús þá ætla ég að fá mömmu til að kokka, afþví hún eldar besta mat í heimi. Vinir mínir elska matinn hennar mömmu, eftir að hafa verið í mat hjá henni, spyrja þeir strax: „Hvenær megum við koma aftur til þín í mat?„

Macklenini Odio Ramirez
Aðstoðarkokkur

Deila