Efling stéttarfélag

„Þegar ég hef verið hérna í 8 tíma, þá vill ég bara fara heim og slaka á“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hafði fengið að heyra að ég væri ágætur með börn og mér fannst í ljósi þess góð hugmynd á sínum tíma að sækja um vinnu á leikskóla, ég hafði prófað ýmis láglaunastörf, fisk og þjónustustörf og háskólinn heillaði ekki eftir stutta atrennu.

Ég kom fyrst inn sem stuðningsaðili með einu barni og svo fór ég á yngstu deildina, og eftir nokkur ár þar langaði mig að prófa eitthvað nýtt og var boðið að vera stuðningur fyrir stúlku, ég hef hugsað um hana í bráðum ár.

Ég kem upphaflega frá Akureyri, en þar kynntist ég nokkrum með Down heilkenni í gegnum starfið hennar mömmu sem er þroskaþjálfar, þegar ég fór með henni í vinnuna, og þetta getur verið mjög skemmtilegt fólk.

Ég og kærastan mín leigjum litla blokkaríbúð í Flúðaselinu, en á undan því leigði ég með tveim vinum mínum íbúð á Laugarnesveginum, við borguðum 240 samtals og 80 þúsund á mann og okkur fannst við hafa sloppið gríðarlega vel. Ég er bíllaus en það er bara afþví að ég hef vanist þeim lífsstíl hérna í Reykjavík og það truflar mig ekki.

Ég vinn átta tíma á dag, ég er með framhaldsskólanám af félagsfræðideild og mig minnir að þá fari ég upp eitt launaþrep, og ég er að fá 270 eftir skatt. Við fáum ekki hádegismat, við borðum með börnunum, þannig að það leggst ofan á. Við fáum einn kaffitíma sem er 35 mínútur.

Þegar ég hef verið hérna í 8 tíma, þá vill ég bara fara heim og slaka á, þá er ég alveg búin á því, bæði líkamlega og andlega, þótt að vinnan sé auðveldari líkamlega síðan að ég hætti á yngstu deildinni þar sem þú ert að halda mikið á börnunum og mikið með þau af því mestu lætin eru í þeim yngstu, það breytist þegar þau eldast og fara á eldri deildina og gera meira sjálf.

Þegar ég kem heim til kærustunnar minnar þá bíða þar fjögur börn aðra hvora vikunnar. Þannig að það er ekki tími til þess að horfa á fótbolta eða lesa bækur þá vikuna. Kærastan mín vinnur hérna líka, við kynntumst í vinnunni, þetta var vinnustaðaást við kynntumst á leikskólanum og í dag búum við saman.

Ég reyndi að fara í leikskólakennaranámið sem eru fimm ár, ég ætlaði að taka það með vinnunni, en þurfti stundum að vera frá vegna námsins og þá var ég alltaf með svo mikið samviskubit yfir því að ég væri fjarverandi og allt væri örugglega brjálað á deildinni, einhverskonar nám bíður betri tíma.

Á þessum fimm árum sem ég hef verið hérna þá hafa þrír karlmenn unnið hérna en engin lengur en þrjá mánuði. Ég er sem sagt eini karlmaðurinn á leikskólanum eins og er og ég er sendur í það að laga ofnanna ef þeir deyja hérna í húsinu sem þeir gera gjarnan, þetta eru gamlir ofnar. “

Már Gíslason
Stuðningsaðili á leikskóla

Deila