Efling stéttarfélag

„Hver einasta pítsa var listaverk“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég var færður upp í vaktstjórastöðuna og hækkaði í launum við það. Það góða við þennan vinnustað er að þú átt möguleika á því að vinna þig upp. Fyrst var ég í pítsunum og bakaði pítsur þegar pítsuofninn var notaður hérna á hótelinu. Reyndar sakna ég þess að vera ekki lengur að baka pítsur, ég fékk mikla útrás og hver einasta pítsa var listaverk. Allar pítsur voru einstakar, engin eins, hvernig álegginu var raðað á pítsuna, mismunandi litir og lögun. Ég fann upp nýjar uppskriftir og samsetningu, og uppáhalds pítsan er Stromboli pítsan. Þar forbakaði ég deigið með Parmesan osti og gráðosti, síðan tók ég hana út og rúllaði henni upp og stakk henni aftur í ofninn, þetta gerði ég til þess að hafa hana “krispý” alveg í gegn. Rúlluna tók ég síðan út og skar niður í sneiðar og með þessu bar ég fram karmelíseraðar valhnetur, rifsberjasultu og timian. Hún gerði mikla lukku og engin annar í bænum var að selja svona pítsu.

Ég er málari og sagði upp kennarastöðu minni í Litháen þegar ég ákvað að flytja til Íslands. Ég kom hingað og kynntist landinu þegar ég var hérna í listamannaíbúð á vegum Sambands Íslenskra Listamanna. Þá hafði ég til umráða vinnustofu í nokkra mánuði, gat málað og hélt sýningu í aðstöðunni sem ég hafði til umráða. Síðan ég byrjaði að vinna og leigja með vini mínum á Íslandi, þá hef ég ekkert málað. Ég er stöðugt að skima eftir vinnustofu en það er dýrt, eins gæti ég aldrei leigt einn, það er bara ekki hægt á Íslandi, maður verður að hafa einhvern til skipta með sér leigunni. Ég held að leigan með öllu, rafmagni og neti sé sirka 250 þúsund kr á mánuði hjá okkur fyrir þriggja herbergja íbúð.

Ég nota olíuliti og það eru svo sterk og óheilnæm efni, það er ekki hægt að vinna með olíu þar sem þú býrð og sefur. Ég mála fólk og andlitsmyndir, en eftir að ég kom til Íslands hefur náttúran ratað inn á strigann hjá mér.“

Martynas Petreikis
Vaktstjóri í eldhúsi

Deila