Efling stéttarfélag

„Ef ég horfi fram í tímann og ímynda mér líf mitt eftir tíu ár, þá sé ég mig tala góða íslensku og vera bakari sem bakar kökur og tertur.“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég bjó í Khon Kaen í Tælandi til tvítugs með bróður mínum, ömmu, pabba og mömmu og flutti til Íslands árið 2011. Maðurinn minn hafði búið á Íslandi mun lengur, hann var aðeins níu ára gamall þegar hann flutti hingað með mömmu sinni.

Þegar ég kom til landsins réð ég mig í vinnu á Hótel. Tengdamamma er ræstingarstjóri á hótelinu og ég vann undir hennar stjórn í sex og hálft ár. Vinnan var stressandi, ég var alltaf á hlaupum að skipta á rúmum og þrífa. Ég hætti á hótelinu fyrir nokkrum mánuðum og réði mig hingað. Hér er mun rólegra, ég vaska upp og aðstoða kokkinn við matseldina. Það hentar mér betur, kaupið er líka hærra. Ég vinn 84 % vinnu í eldhúsinu og fæ 260 þúsund útborgað eftir skatt.

Mér fannst allt flókið þegar ég kom til Íslands, erfitt að tala og erfitt að hlusta á þetta tungumál. Engar vinkonur og slæmt veður. Það hefur alla vega ræst úr vinkonuvalinu. Í dag á ég fjöldann allan af bæði Tælenskum og Víetnömskum vinkonum á Íslandi.

Tengdamamma talar góða íslensku og leggur mikið upp úr því að ég læri íslensku. Hún ávarpar mig alltaf á íslensku, en þegar ég skil ekkert hvað hún er að segja, þá gefst hún upp og breytir yfir í tælensku. Ef ég horfi fram í tímann og ímynda mér líf mitt eftir tíu ár þá sé ég mig tala góða íslensku og vera bakari, köku- og tertubakari.

Ég heimsæki fjölskyldu mína annað hvert ár í janúar þegar hitinn er skaplegur í Tælandi. Ef ég ætti meiri pening þá myndi ég fara árlega til Tælands. Ég gæti auðvitað ferðast um heiminn og skoðað önnur lönd en alltaf þegar ég get farið frá Íslandi langar mig bara að fara heim til fjölskyldu minnar í Tælandi.“

Palika Phuangpila
Starfskona í eldhúsi

Deila