Efling stéttarfélag

„Patricia, þú verður að koma til Íslands!“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Vinkona mín frá Portúgal flutti hingað til Íslands fyrir hrun, eða árið 2006. Á hverju ári hringdi hún í mig: „Patricia, þú verður að koma! Komdu til Íslands það er gott að búa hérna,“ sagði hún.

Ég hafði verið ritari í stóru fyrirtæki og missti vinnuna þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. Það var hrun í Portúgal eins og hérna, efnahagurinn hefur aldrei jafnað sig aftur, og ég var í vanda stödd. Í Portugal er líka mjög erfitt fyrir konur yfir fertugt að fá vinnu. Karlmenn yfir fertugt eiga aðeins meiri möguleika, allavega þeir sem vinna á vinnuvélum eða eitthvað þess háttar.

Eftir gjaldþrotið á gamla vinnustaðnum fékk ég vinnu hjá Vodafone, og keyrði í tvo tíma á dag til vinnu og kom til baka heim á kvöldin kl. 9, dauðþreytt og sótti dóttur mína sem var allan daginn í pössun hjá foreldrum mínum. Vodafone borgaði mjög illa og þetta leit ekki vel út, þannig að ég sló til og hlustaði á vinkonu mína og flutti til Íslands.

Við hjónin fengum bæði vinnu hérna á hótelinu og fluttum til Íslands árið 2015. Við leigjum og borgum 210 þúsund í leigu og vorum bíllaus fyrstu árin. Það var fínt, þá labbaði ég í vinnuna á hverjum degi, líka á veturna. Eftir að ég fékk mér bíl og fór að keyra þá finnst mér ég hafa elst og vera þreyttari og ég er að hugsa um að fara að ganga aftur.

Stelpan mín er miklu heilsuhraustari hérna á Íslandi en heima í Portúgal, ég held að það sé af því að börnin eru svo mikið úti í öllum veðrum. Í Portúgal eru börnin alltaf inni. Ég ætla að selja íbúðina okkar í Portúgal og kannski kaupa eitthvað hérna. Ég er alkomin til Íslands og hér vil ég eiga heima.“

Patricia Alexandra
Vaktstjóri

Deila