Efling stéttarfélag

„Hjúkrunarheimili og leikskólar eru bestu vinnustaðirnir til þess að læra íslensku.“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

Konurnar í ræstingardeildinni á Grund koma frá Póllandi og Litháen. Þær hafa nýlega tekið yfir ónotað geymslurými á neðstu hæð dvalarheimilisins og útbúið bjarta og litríka kaffistofu fyrir hópinn. Núna eiga þær sitt eigið afdrep þar sem rússneska er tungumálið sem tengir þær saman og hljómar yfir kringlótt kaffiborð með grænum dúk. Allar lærðu þær rússnesku á leið sinni í gegnum skólakerfið í Póllandi og Litháen. Þær lögðu í púkk, ein kom með hraðsuðuketil, önnur með kaffivél, þær fundu borð og dúk og bleikt plastblóm í pott og herbergið ilmar af kaffi, kexi og vararlit. „Það er svo mikið fjör hjá okkur, skvaldrið heyrist frá kaffistofunni út á götu“ segir Victoria frá Póllandi.

Hjúkrunarheimili og leikskólar eru bestu staðirnir til þess að læra íslensku, en það er mismunandi álit innan hópsins hvort það sé áríðandi að læra tungumálið. Þær segja að það fari eftir því hvort aðeins sé verið að stoppa stutt og vinna í nokkra mánuði eða dvelja hér lengur og setjast að til frambúðar. Ræstingarstjórinn Vaida sem hefur starfað og búið á Íslandi í tólf ár talar óvenju góða íslensku.

Lina er viðskiptafræðingur frá Litháen og hefur verið á landinu í tvö ár. Hún elti ástina til Íslands en kærastinn hennar hefur búið hér í 18 ár. Hún fór úr góðri vinnu í Litháen sem henni fannst sárt að sjá eftir. „Lina valdi ástina fram yfir vinnuna“ segja vinkonurnar í ræstingardeildinni. „Ég fæ enga vinnu í mínu fagi á meðan ég tala ekki tungumálið.“ Lina byrjaði í janúar að læra íslensku og hefur klárað tvö námskeið.

Silva kemur frá Litháen. „Hún bakar rosalega góðar tertur“ segja konurnar „og terturnar hafa ratað hingað á kaffistofuna okkar“. Silva réði sig aðeins í sumarvinnu til Íslands en núna vill hún ekki fara aftur heim.

Gintare kemur líka frá Litháen, „hún er listakona, hún hannar föt og skartgripi“ segir Vajda stolt. Hún réði sig á Grund í ræstingar yfir sumartímann og getur ekki flutt hingað þótt hún gjarnan vildi af því að dætur hennar búa í Litháen og vilja ekki fara þaðan.

Adurone er frá Litháen og hefur búið á Íslandi í tvö ár. Hún elti systur sína sem flutti til Íslands fyrir tólf árum og starfar einnig á Grund. Í Litháen vann Adurone í verslunarmiðstöð og á saumastofu. Hún tekur fram að hún hafi líka búið í nokkra mánuði á Spáni áður en hún kom til Íslands.

Dorotha kemur frá Póllandi, hún hefur unnið á Íslandi í tæp tvö ár. Hún vekur athygli hinna fyrir það að hafa unnið á saumastofu heima í Póllandi þar sem hún saumaði föt fyrir pólska landsliðið á Ólympíuleikunum.

Victoría hefur verið á Íslandi í ellefu ár. Hún kemur frá bæ sem er ekki langt frá Kraká. Hún kom upphaflega til að borga námsgjöldin fyrir dóttur sína svo að hún gæti verið í námi. Hún ílengdist og hefur verið hér síðan. Hún kom 2007 en getur ekki sagt að hún hafi fundið mikið fyrir hruninu sem skall á stuttu síðar, hún hélt sinni vinnu. Hún er uggandi yfir réttindum sínum en það styttist í eftirlaunaaldur hennar og hvað tekur þá við? “Á fyrstu árunum mínum á Íslandi, fékk ég bréf sent heim frá Eflingu þar sem maður var upplýstur um réttindi sín. Hún man líka eftir fundi þar sem starfsmaður frá Eflingu kom ásamt túlk en það er svo langt síðan, allavega tíu ár. Það gæti verið að þessar upplýsingar séu komnar á netið” segir hún dræmt, einsog netið sé annar heimur.

Ræstingardeildin á Grund

Deila