Efling stéttarfélag

„Ekki hægt að líkja því saman fjárhagslega frá því að vera ein og vera orðin einstæð móðir“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Við erum sjö systkinin, foreldrar mínir hættu ekki fyrr en þau eignuðust strák, ég er númer fimm í röðinni og svo kom loksins bróðir minn. Þetta með að eignast strák skipti pabba svo miklu máli til þess að viðhalda fjölskyldunafninu.

Mamma var heimavinnandi, það var mikið að gera hjá henni með öll þessi börn, hún saumaði og eldaði út í eitt og hélt utan um fjölskylduna á meðan pabbi sem var byggingarverkamaður fór til borgarinnar þar sem hann vann oft vikum og mánuðum saman. Við bjuggum öll hjá afa og ömmu á meðan pabbi var að byggja húsið okkar sem hann gerði í hjáverkum og tók hann nokkur ár að klára.

Á Filippseyjum er algengt að búa í foreldrahúsum eftir að hafa gift sig, makinn flytur gjarnan inn til tengdafjölskyldunnar. Systir mín sem á tvö börn býr ennþá heima hjá foreldrum okkar.

Fjölskyldutengslin eru sterkari og það fer engin á elliheimili nema að hann eigi bara alls engan að.

Við systkinin lærðum öll að sauma, alla mína bernsku voru amma og mamma að sauma, bæði á okkur og líka fyrir aðra til þess að ná endum saman. Ég var á leiðinni í menntaskóla þegar systir mín veiktist. Hún var inn og út af spítala og ég vildi leggja mitt að mörkum til þess að hjálpa til og hætti við frekara nám og fór að sauma til að létta undir með heimilinu.

Ég var nánast unglingur þegar ég kom hingað til Íslands og þekkti lítið annað en lífið með mömmu minni, ég grét og saknaði fjölskyldunnar skelfilega mikið. Mamma sagði mér bara að koma heim aftur, en ég sá engin tækifæri heima, enga vinnu, þannig að ég harkaði af mér og með hverju nýju orði í íslensku sem ég lærði skánaði ástandið.

Þetta var fyrir 19 árum síðan og ég fékk ég vinnu á Hrafnistu þar sem ég hef ég unnið við umönnun allar götur síðan. Ég þekki rútínuna, þetta er ekkert stress. Mér líður vel hérna, gott fólk sem ég vinn með og ég þekki heimilisfólkið. Kannski verð ég hérna á meðan ég hef ennþá krafta til þess að lyfta fólkinu.

Lífið á Íslandi er allt öðruvísi en úti. Heima á Filippseyjum hitti ég nágranna mína á hverjum einasta degi. En hérna hitti ég ekki frænku mína nema við skipulögð tækifæri eins og afmæli og partý, samt vinnum við báðar hérna á Hrafnistu og búum meir að segja í sömu blokk.

Á meðan ég var ein var ég í tveim vinnum. En þegar ég eignaðist son minn þurfti ég að fá mér bíl og gat ekki unnið svona mikið. Það var ekki hægt að líkja því saman fjárhagslega að vera orðin einstæð móðir. Það var erfitt þegar barnið veiktist, ég var óörugg, en ég er mjög fegin hvað þetta hefur þrátt fyrir allt gengið vel. Vegna aðstæðna var aðeins í boði fyrir mig að taka morgunvaktir, hann var aldrei hjá dagmömmu. En föðurfjölskylda sonar míns, pabbi hans og amma og vinkona mín sem var þá í barneignarfríi hjálpuðu mér svo að ég kæmist til vinnu.

Ég kláraði félagsliðann áður en ég eignaðist barnið mitt. Það var töff, allt á íslensku og ég að vinna á tveim stöðum, en kaupið hækkaði við það upp í 300 þúsund krónur á mánuði. Konurnar sem vinna hérna með mér í fullu starfi eins og ég eru að vinna sömu vinnu en á lægra kaupi ef þær hafa ekki haft tök á því að taka félagsliðann.

Eiginmaður minn vinnur á indverskum veitingastað og vinnur oftast á kvöldin. Við leigjum íbúð með öðru pari, við búum sem sagt fimm saman með syni mínum. Hitt parið vinnur á öðrum vöktum en ég og sambýliskona okkar vinnur á tveim stöðum og kemur stundum heim og leggur sig til þess að safna orku. Við eldum því í sitthvoru lagi og sambúðin gengur vel en við sjáumst ekki dögum saman, maður verður bara hissa þegar við hittumst.

En þetta gengur ágætlega svona, við þríeykið dveljum í einu herbergi og notum herbergið sem sonur minn ætti að hafa sem sjónvarpsherbergi. Okkur langar að kaupa okkar eigið húsnæði og það verður vonandi einhvern tíma í framtíðinni. Við höfum ekki bolmagn til þess að leigja ein og borga 260 þúsund krónur í leigu, þá yrðum við að neita okkur um mikið, við færum allavega ekki í heimsókn til Filippseyja. Ég eyði litlu, hef aldrei verið mikið fyrir dýra hluti, töskur og þess konar dót. Við förum stundum í bíó og nýtum okkur Novatilboð og þess háttar og ég vil geta veitt syni mínum sem er að byrja í skóla það sem hann vantar.“

Regieline Sellote
Félagsliði

Deila