Efling stéttarfélag

„Ekki hefur dregið úr flökkulífinu síðan fjölskyldan mín varð pólsk/íslensk“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég og fjölskyldan erum frá Wloclawek, djúpt inn í Pólland. Heima starfaði ég við fólksfluttningar en einsog margir aðrir í Wloclawek hef ég sótt vinnu út fyrir Pólland á minni starfsævi. Hingað kom ég fyrst upp úr aldamótum og starfaði hérna fram að hruni. Síðan hef ég komið hingað öðru hvoru í lengri og styttri tíma í senn. Mínar rætur á Íslandi eru dýpri en bara í gegnum vinnuna, því hingað flutti önnur dóttir mín og giftist íslenskum manni. Hin dóttir okkar kom hingað líka en stoppaði stutt við, hún býr með börnum og manni í Póllandi. Við foreldrarnir, ég og konan viljum helst vera nálægt fjölskyldunni okkar sem býr í tveim löndum, Íslandi og Póllandi.

Íslensku börnin í fjölskyldu tengdasonar míns kalla mig “afa Pólland”. Tengdasonurinn leggur líka mikið upp úr því að sameina fjölskylduna og vill helst hafa alla á einum stað, það mætti halda að hann væri pólskur. En það er af þeirr er ástæðu sem hann talaði við Steypustöðina og sótti um starf fyrir mig núna í vor. Ég er auðvitað vanur lífi farandverkamannsins og sló til og réði mig á steypubíl þrátt fyrir að það sé stutt í eftirlaunaaldurinn. Steypustöðin er mjög góður vinnustaður, góð fjölskylda sem rekur fyrirtækið. Ég hef unnið hjá þeim áður og er öllum hnútum kunnugur á þeim bæ. Hjá Steypustöðinni eru allir jafningjar og hjálpa hvor öðrum.

Ég bý í góðu yfirlæti hjá dóttur minni og tengdasyni sem keppast við að elda fyrir mig. Hann er stöðugt að kynna fyrir mér íslenska eldhúsið og ég borða matinn hans með bestu lyst, nema kannski hákarlinn, á móti matreiðir dóttir mín pólskann mat fyrir hann og mig. Sjálfur sýð ég ágætis pasta ef þörf er á.

Konan mín er ástfangin af Íslandi einsog dóttirin. Hún kom í heimsókn fyrir stuttu en hún getur aldrei verið lengi frá barnabörnunum okkar sem við eigum í Póllandi og er flogin heim áður en við snúum okkur við. Það má segja að flökkulífið sé einkennandi fyrir fjölskyldu mína og ekki hefur dregið úr því síðan fjölskyldan varð pólsk/íslensk.“

Roman Laskowski
Bílstjóri á steypubíl

Deila