Efling stéttarfélag

„Mér væri sama þótt ég væri veik ef dóttir mín væri bara hjá mér“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég kom fyrir átján árum frá Thaílandi, þann 12 nóvember, og ég byrjaði að vinna daginn eftir, þann 13 nóvember. Systir mín spurði hvort ég vildi ekki taka því aðeins rólega, en ég gat ekki beðið með að byrja að vinna. Systir mín er gift Íslending og þau hjónin fundu vinnu fyrir mig á öldrunarheimili.

Frá fyrsta degi á Íslandi hef ég þjónað öldruðum Íslendingum. Hérna eru þjónustuíbúðir sem ég þríf og ég baða íbúana og vinn í eldhúsinu, þetta er allt gaman, en ég er stundum þreytt ég er líka að eldast, ég er 62 ára gömul.

Við erum hópur kvenna hérna í blokkinni að þrífa þjónustuíbúðirnar en vinnum einar í sitthvoru lagi af því við dreifum okkur um allt húsið. Sem betur fer hittumst við í matartímanum, og borðum saman hádegismat, þá borðar yfirmaðurinn líka með okkur. Við sem vinnum hérna í ræstingunum komum flestar með mat með okkur að heiman, ég kom með Phathai núðlur í dag, ég kem alltaf með taílenskan mat með mér að heiman sem ég elda áður en ég legg af stað í vinnuna. Við erum með leyfi til þess að kaupa matinn sem er borðaður hérna í mötuneytinu á heimilinu ef það er eitthvað afgangs eftir að íbúarnir hafa borðað. En því miður lagðist niður okkar sameiginlegi kaffitími, við eigum ekki lengur þessa stund þar sem allir settust niður saman klukkan 10 á morgnanna og spjölluðu í 30 mínútur, við megum enn þá fá okkur kaffi á hlaupum en þessi fasti kaffitími var afnumin á þessu ári, ég sakna hans.

Ég á eina dóttur, en pabbi hennar er dáinn, dóttir mín varð eftir í Thaílandi, og ég myndi gefa svo mikið fyrir að hafa hana hjá mér. Ég hef sótt um landvistarleyfi, en fékk synjun. Þær búa saman mæðgurnar í , dóttir mín og dótturdóttir sem er að læra tölvunarfræði í Háskóla og ég bý ein hérna og sendi þeim peninga, af því dóttir mín fær ekki vinnu í Thaílandi, samt er hún klár og talar ensku, ég sendi þeim pening fyrir uppihaldi og tölvunarfræðináminu.

Ég sótti um landvistarleyfi á Íslandi fyrir dóttur mína, mig langar svo að fá hana til mín, ég var búin að finna vinnu handa henni, þetta reyndi ég fyrir kreppu en útlendingastofnun synjaði henni um leyfið. Það var ekki eins þungbært að fá höfnun á þeim tíma, en með tímanum finnst mér það alltaf erfiðara að við séum svona aðskildar. Ég fékk krabbamein fyrir átta árum, og þá var engin að annast mig nema systir mín sem kom við hjá mér. Mér væri sama þótt ég væri veik ef dóttir mín væri bara hjá mér“

Rungret Decha
Ræstingar og aðstoð á hjúkrunarheimili

Deila