Efling stéttarfélag

„það var svo gaman í saltfisknum, skítug upp fyrir haus og það var draumur að vera á skaki“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er þriggja barna móðir, og barnabörnin eru sex. Tvö barna minna búa erlendis, sonurinn í Noregi og dóttirin á Flórída, en miðbarnið, dóttur mína missti ég úr krabbameini fyrir ári síðan, hún var mikil listakona.

Þegar elsta barnið mitt var tveggja mánaða flutti ég með barnsföður mínum til Bandaríkjanna. Við vorum gift í fjögur ár, og skildum þegar ég var búin að eignast þriðja barnið. Ég var einstæð móðir í Bandaríkjunum í átta ár, það var erfitt, en maður hafði það af. Ég var þjónn og við leigðum tvær saman, vinkona mín sem var líka að þjóna og átti krakka, fyrirkomulagið var þannig að við vorum aldrei á sömu vakt og gættum barnanna fyrir hvor aðra. Við vorum góðar vinkonur og þetta gekk upp, en á þeim tíma var lítið um leikskóla í Bandaríkjunum. Undir það síðasta bjó ég á Flórída og sá um golfvöll. Þegar ég sá fram á að ég hefði ekki efni á að mennta börnin í Bandaríkjunum þá flutti ég heim, fyrst á Gufuskála en þar bjuggu foreldrar mínir.

Þaðan flutti ég á Hellissand og vann í saltfiski, mikill hasar, skítug upp fyrir haus og svo var ég á skaki á sumrin á fjögurra tonna trillu sem hét Lára, það var draumur að vera á skaki. Ég var Íslandsmeistari kvenna í sjóstangaveiði sem ég stundaði í tíu ár. Ég get ekki setið við tölvu, ég þarf að vera á hreyfingu og helst í akkorðsvinnu.

Manninn minn fann ég á réttarballi á Hellissandi stuttu eftir að ég kom heim frá Bandaríkjunum og við höfum verið saman síðan í heil þrjátíu og þrjú ár. Þegar börnin fluttu að heiman og fóru í skóla vorum við ein eftir í kotinu á Hellissandi og hugsuðum okkur til hreyfings og ákváðum að flytja til Reykjavíkur og finna okkur vinnu þar. Hann er smiður og okkur dreymdi um að eignast gamalt hús og gera það upp sjálf. Einn daginn kom hann heim og sagði við mig “ég er búin að finna hús handa þér”, hann fór með mig niður á Lindargötu og sýndi mér hrörlegasta kofa sem ég hafði séð. Ég spurði hann hvort að hann væri hættur að elska mig? Hann sagði: „vertu róleg“ og fór með mig upp á Laugarveg og sýndi mér glæsilegt bakhús og taldi mér trú um að okkar hús mynda líta alveg eins út eftir nokkrar lagfæringar. Við áttum efni á kofanum á Lindargötu og næstu árin eyddum við öllum frítíma okkar í að gera upp húsið. Í millitíðinni byggðu þeir “Kínamúrinn”, Skuggahverfið og þetta hætti að vera unaðsreitur. Næstu árin fóru í þras við borgina um framtíð hússins og á endanum fundum við sjálf 16 hektara lóð í Ölfusinu og fengum heimild til þess að flytja það í sveitina.

Þegar við fluttum hingað austur réði ég mig í vinnu í gróðurhúsin, ég fékk löngun til þess að prófa eitthvað nýtt. En ég var ekki lengi þar, nýir eigendur vildu fá ódýrara vinnuafl og flestum Íslendingunum var sagt upp hjá fyrirtækinu. Þetta var á tímabilinu þegar allir voru að safna fyrirtækjum á eina hendi og hagræða rekstrinum í kringum 2005 sem rúllaði á hausinn nokkrum árum síðar. Ég held örugglega að þessir aðilar séu ekki lengur eigendur af þessum sömu gróðurhúsum.

Eftir gróðurhúsavinnuna réð ég mig hingað í þvottahúsið fyrir elliheimilin. Þetta er eitt fullkomnasta þvottahús á landinu og það var byggt fyrir tíu árum og ég hef verið hérna jafn lengi. Þetta er góður vinnustaður, góður vinnuandi og gott fólk sem rekur þvottahúsið. Við förum úr einu verki í annað, setja í vél, strauja, brjóta saman og pakka. Þú ert á ferðinni allan tímann. Þetta er eitt fullkomnasta þvottahús á landinu skilst mér. En það vantar súrefni í húsið, vélarnar taka allt súrefnið frá manni, það er arfa vitlaus hönnun á húsinu, stórir gluggar sem ekki er hægt að opna og ólíft þegar sólin skín. Arkitektinn kom hingað og sagði að það væri ekkert að þessu en það verður auðvitað að vera hægt að opna glugga í þvottahúsi. Þeir settu upp loftræstingarkerfi en það dugar ekki til. Þetta er það eina sem við kvörtum yfir og það er hlustað í alvöru og reynt að koma á móts við okkur.“

Sigrún Sigurðardóttir
Starfsmaður í þvottahúsi

Deila