Efling stéttarfélag

“Þetta er einsog að synda í tjöru„

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Sigurgyða: Ég hef aðstoðað í eldhúsinu á leikskólanum í eitt ár.

Sigríður: Og ég hef verið hérna í hálft ár. Ég var stuðningsfulltrúi í sérkennslu og vildi breyta til. Eldhússtarfið hentar mér vel, hinsvegar er það spurning hvort að maður geti leyft sér að vinna svona vinnu þegar launin eru þetta lág. En það vinnur svo gott fólk hérna og mér líður mjög vel.

Sigurgyða: Já það er satt, þetta er góður vinnustaður og maður eignast ekki vini á öllum vinnustöðum.

Sigríður: Ef ég væri án fyrirvinnu, þá ynni ég örugglega ekki hérna. Laun eiga að vera þannig að þú getir séð fyrir fjölskyldu þinni ein. Þú verður að hafa efni á því að vera ein og geta séð fyrir þínu fólki.

Sigurgyða: Fólk stoppar stutt við í eldhúsunum. Það eru mjög mikil veikindi yfirhöfuð í þessum láglaunastörfum af því fólk getur þetta ekki. Þegar vonin er farin um betri kjör þá er svo margt farið. Kvíði og þunglyndi tekur við og margir enda sem öryrkjar.

Sigríður: Það er yfirhöfuð gott að sækja vinnu, en það geta ekki allir unnið.

Sigurgyða: Ég hef reynt að vinna 200% vinnu og það endaði ekki vel, bitnaði mest á börnunum mínum og kom illa niður á mér.

Sigríður: Það búa tvær þjóðir í þessu landi. Í öðrum hópnum er fólk að spyrja: „Hvað ætlar þú að gera í sumar? Hvert ferðu til útlanda?“ og svörin eru: „Ég ætla þetta og þetta!“ Síðan er það hinn hópurinn í landinu sem getur ekki leyft sér að hugsa um frí og ferðalög.

Sigurgyða: Þetta er eins og að sauma buxur og eiga bara efni í eina skálm. En kröfurnar eru þær að maður sé alltaf svo flottur, það má ekki sjást í sprungurnar, en það eru margar sprungur, og maður fær bara örlítið sparsl og eitt límband. Manni langar að gefa börnunum sínum Playstation í jólagjöf en fer í góða hirðinn og kaupir tölvuspil. Ef maður snapar sér yfirvinnu er uppbótin tekin upp í skatt. Jólauppbót og orlofsuppbót, allt er tekið í skatt. Þetta er eins og að synda í tjöru.

Sigríður: Ég vil vera með laun sem ég borga skatta af. Laun fyrir vinnuna mína og vera fullgild. Ég vil borga skatta til samfélagsins, við viljum betra heilbrigðiskerfi.

Sigurgyða: Einmitt, maður á ekki að þurfa vera háður barnabótum, meðlagi, og húsnæðisbótum. Af hverju þurfa launin að vera svona léleg að fólk þurfi að stóla á allar þessar bætur? Ég hafði unnið í mörg ár og borgað skatta, en varð veik og datt út af vinnumarkaði og þurfti að fara tímabundið á atvinnuleysisbætur. Ég skammaðist mín fyrir að þiggja þær samt var ég búin að borga minn hlut í gegnum skattinn.

Sigríður: Við eigum ekki að skammast okkar af því að við erum á lágum launum, við eigum rétt á því að hafa næg laun til þess að lifa út mánuðinn. Mér er sama ef einhverjir hafa það brjálæðislega gott en við hin þurfum að hafa mannsæmandi laun og geta sinnt börnunum okkar.

Sigurgyða: Ég myndi vilja vinna við eitthvað sem ég elska. Það væri æðislegt að vinna meira í ferðaþjónustu. Ég var að kokka og trússa í hestaferðum síðasta sumar. Ég var eini Íslendingurinn allt hitt voru útlendingar, nema leiðsögumaðurinn á sínum lúsarlaunum.

Sigríður: En það er sorgleg staðreynd, að það er erlendur starfskraftur sem er á lélegasta kaupinu. Þetta er eins og mansal, viljum við virkilega þessa þróun? Að koma svona illa fram við fólk, ekki viljum við að fólk fái ekki tækifæri til þess að þróa sitt eigið líf, hvaðan sem það kemur. Margir búa hjá vinnuveitanda sínum, háðir honum um húsnæði og afkomu. Það er ekkert öryggi þegar þú ert alveg upp á vinnuveitanda þinn kominn. Það er erfitt að sækja réttindi sín þegar þú átt á hættu að verða sagt upp og hent út á götu.

Sigurgyða: Af illri nauðsyn á ég ekki bíl. Ég labba í vinnuna af því ég bý hérna í næsta húsi annars tek ég strætó allar mínar ferðir. Hjólastígar eru dekur við ríka fólkið að vissu leyti, sumir verða að vera á bíl eins og þeir sem eiga börn og búa í Breiðholtinu en vinna í bænum.

Siguríður: Við erum hlynntar hjólastígum en þeir eru hannaðir fyrir aðra en okkur. Fyrir konur eins og okkur er val um lífsstíl ekki í boði.

Sigurgyða: Borgin er með þessa vænu umhverfisstefnu. Við sem vinnum hjá borginni eigum rétt á sex þúsund krónur í samgöngustyrk á mánuði en það dugar ekki fyrir græna kortinu sem kostar ellefu þúsund krónur. Þegar ég var í heimilishjálpinni þá fékk maður bara afhent græna kortið við hver mánaðamót. Núna heitir það að lifa umhverfisvænum lífsstíl þegar þú átt ekki efni á bíl. Þetta er eins og að “kjósa” sjálf að fara á Núðlukúrinn þegar þú átt ekki efni á að kaupa mat.

Eins er það með líkamsræktarkortið. Fyrst þarft þú að vinna í einhvern tíma og öðlast réttindi til þess að fá styrk í ræktina. Síðan ferðu og kaupir þér kort og borgar 70 þúsund í reiðufé, en áður en þú gerir það ertu búin að rannsaka og finna ódýrasta tilboðið af því það er þak á styrknum og þú borgar sjálf mismuninn. Þú verður að hafa kvittun fyrir allri upphæðinni sem þú ferð með til vinnuveitanda og færð 15 þúsund krónur frá honum. Svo ferðu í Eflingu með sömu kvittun og færð rest upp í þakið þeirra. Þannig að einn mánuðinn ertu búin að eyða 35 þúsund krónur í líkamsræktarkort sem þú átt ekki efni á. Þvælist fram og til baka með blöð og kvittanir í strætó til þess að fá réttindin þín uppfyllt. Fólk hefur ekki tíma í þetta. Fólk er að vinna þegar þessar skrifstofur eru opnar.

Ég fæ 190 þúsund krónur í laun en neysluviðmið eru 200 þúsund krónur hjá félagsþjónustunni, á meðan þau eru 400 þúsund krónur hjá Velferðarráðuneytinu. Allavega þannig að ég skuldaði 10 þúsund krónur um hver mánaðamót og var bent á að fara til fjármálaráðgjafa félagsþjónustunnar.

Fjármálaráðgjafi félagsþjónustunnar skoðaði debetkortafærslurnar sem ég gat sýnt honum og rak augun í þrjár bíóferðir og spurði mig: „Af hverju ferðu ekki í ísbíltúr með börnunum þínum?“

Ég svaraði: „Af því að ég má ekki fara með ís í strætó.“ Hann skammaði mig og sagði mér að ég væri ekki að skapa minningar með börnunum mínum ein í myrkvuðum bíósal. Ég var hugsi yfir þessu og svaraði honum að ég væri auðvitað að skapa þeim svakalegar minningar þegar okkur verður hent út úr strætó, mér og börnunum með ísinn.

Ég skildi ekki hvað væri í gangi. Í alvöru, ég var búin að segja honum að ég ætti ekki bíl. En honum fannst “ísbíltúrinn” vera lausnin fyrir mig af því að þetta var hans hugmynd “ísbíltúrinn”. Þetta er maður sem vinnur hjá félagsþjónustunni og leiðbeinir fátæklingum um fjármál sín, í hvorn vasann þeir eigi að stinga skuldunum. Þetta er eins og kakan, af hverju færðu þér ekki köku þegar þú átt ekki fyrir brauði?

Hefur þú einhver tíma hlustað á vin þinn segja þér frá draumi sem þú skilur ekkert í, sem hefur engan endi og þú ert löngu búin að tapa þræði, akkúrat þannig er tilfinningin að vera peningalaus að velkjast um í þessu kerfi.“

Sigurgyða Þrastardóttir og Sigríður Vala Jörundsdóttir
Starfskonur í eldhúsinu á Holt

Deila