Efling stéttarfélag

„Í lok mánaðar þegar ekkert er eftir fer ég til fjölskyldunnar og fæ að borða“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég var aðeins tíu ára þegar ég byrjaði að bera út Fréttablaðið. Ég hef starfað á leikskóla og ég vann líka í afgreiðslu hjá KFC um tíma. Ég byrjaði í umönnun fyrir sex árum og tek sjúkraliðann með í kvöldskóla.

Grafarvogur og Breiðholt eru mín bernskuhverfi en núna leigi ég í Kópavogi ásamt dóttur minni sem er í leikskóla og borga 150 þúsund fyrir tveggja herbergja íbúð. Sjálf sef ég á sófanum í stofunni og læt dóttur minni eftir herbergið sem er mjög lítið. En hún þarf sitt svæði til að leika sér. Ég er heppin með leigusala, hún gaf mér tveggja ára samning þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur í bili. Það eru ekki launin, heldur góða fólkið sem dvelur hérna og fólkið sem ég vinn með sem hvetur mig áfram í lífinu og heldur mér í vinnunni. Við það að vinna á öldrunarheimili lærði ég að bera virðingu fyrir eldra fólki. Það mætti vera meiri virðing fyrir eldra fólki í samfélaginu, sumir hérna þekkja ekki barnabörnin sín. Ég finn stuðning frá samstarfsfólki mínu vegna skólans. Til að mynda fæ ég að taka morgunvaktirnar af því að skólinn minn er á kvöldin. Skólagangan væri annars ekki möguleiki og aldrei án hjálpar fjölskyldu minnar, en mamma eða systir mín sækja dóttur mína á leikskólann þegar ég er í skólanum.

Kaupið mætti vera hærra. Ég er einstæð móðir og get því aðeins unnið 80% starf og ég þarf að telja hverja einustu krónu. Eftir skatt, er ég með 230 til 240 á mánuði, fer eftir álagi og rauðu dögunum. En ég get ekki alltaf unnið á rauðu dögunum þegar leikskólarnir eru lokaðir. Rauðu dagarnir hífa þetta upp en skatturinn tekur síðan allt niður. Ég fæ húsaleigubætur og húsnæðisstuðning, 80 þúsund krónur samtals.

Í lok mánaðar þegar ekkert er eftir fer ég til fjölskyldunnar og fæ að borða. Ég vildi að ég gæti verið róleg og þyrfti ekki að stressa mig yfir öllu en það má ekkert út af bera. Bíllinn bilaði og viðgerðin kostaði mig 80 þúsund krónur sem ég er enn þá að borga af. Fimm ára gömul dóttir mín vill fara í ballett og dans, en ég hef ekki efni á því að veita henni það þegar gjaldið er á bilinu 30 - 40 þúsund. Á meðan hún er ekki orðin sex ára þá eru tómstundir hennar ekki niðurgreiddar en hins vegar koma önnur útgjöld þegar hún byrjar í skóla.

Að kaupa föt er munaður og ég geri það sjaldan af því ég á ekki efni á því. En við mæðgurnar leyfum okkur að fara í sund þrátt fyrir allt og njótum þess.“

Stephanie Rósa Bosma
Umönnun við aldraða í sex ár

Deila