Efling stéttarfélag

„Það er ógeðslega mikill kvíði og þunglyndi hjá krökkum í kringum mig“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég er nýbyrjaður í afgreiðslunni hér á Eldofninum og afgreiði pítsur. Ég er líka að vinna á Sægreifanum og ætla að púsla þessu saman og vinna á báðum stöðum, ég vinn eins og hundur.

Ég hef unnið síðan ég var fjórtán ára. Ég hef ekki töluna á því hvað ég hef unnið á mörgum stöðum, KFC, Hereford Steikhús, Walk On, Lamb Street Food, Pizza 67, Eldsmiðjan, Búllan, Surf and Turf, Norðurál en þar var ég á lyftara að flytja álstangir í gáma og svo hef ég líka unnið hjá Opin Kerfi, þar sem ég límdi íslenska stafrófið á lyklaborð, þetta man ég allavega í fljótu bragði.

Áður en ég kom hingað vann ég á veitingastað út á landi á jafnaðarkaupi. Ég vann 400 tíma á mánuði, með 2 þúsund á tímann. Það var engin launaseðill og ekkert frí. Við vorum bara tvö á vaktinni að þjóna þannig að við gátum ekki tekið okkur frí. Þegar annað okkar veiktist þá var svo mikil pressa á hinu sem var í vinnunni. Þetta var ekki að ganga, fjórir útlendingar í eldhúsinu sem bjuggu fyrir ofan staðinn, allt í þessum dúr. Ég var þarna í tvo mánuði og gafst síðan upp.

Ég hef unnið áður á pítseríu, sú var á Grensásvegi, þar var líka allt í rugli, og sá staður fór á hausinn. Ég var búinn að vinna þar í sex eða átta mánuði, endalaust og alla daga, þegar ég fattaði að ég var ekki að fá rétt borgað. Eigandinn tók upp á því að taka launin okkar sem unnum þarna og lækka þau aftur í tímann á einu bretti um marga mánuði og ég fékk bara greitt pínu brot af laununum mínum. Þá fór ég í stéttarfélagið og þau hjá Eflingu vildu sjá tímana og launaseðla og tryggingasjóðurinn borgaði ári síðar það sem ég átti inni. Ég held að staðurinn hafi lokað stuttu síðar.

Ég flutti að heiman fimmtán ára, flutti til Reykjavíkur og bjó hjá ömmu í eitt ár en fór svo sjálfur að leigja, herbergi út í bæ. Ég hef verið að leigja og vinna síðan og af og til verið í skóla með. Ég er tæknilega séð í FB en þó með hléum en mig langar að klára skólann til þess að þurfa ekki alltaf að vera í þessum þjónustustörfum. Þegar ég verð eldri vil ég vera með vinnu sem er á þægilegum tíma og ekki svona erfið líkamlega. Það er erfitt að vera með fjölskyldu í þessum veitingabransa segir eldra fólk mér, á mörgum stöðum eru tólf tíma vaktir þar sem þú stendur í lappirnar allan tímann. En ég er með skólakvíða og kvíðinn bitnar á svefninum sem er slæmt og fyrir próf hef ég lent í því að sofa ekki dúr og koma svo úttaugaður og ósofinn í prófin. Ég þarf að vinna með skólanum en ef ég vinn bara um helgar þá þyrfti það ekki að koma niður á náminu.

Það er ógeðslega mikill kvíði og þunglyndi hjá krökkum í kringum mig, meira hjá strákavinum mínum en stelpunum, þær eru sjálfsöruggari. Það eru ýmsar ástæður fyrir kvíðanum, leiga er svo óhuggnanlega dýr og krakkar geta ekki flutt út frá foreldrum sínum. Skólinn er líka pressa, þú verður að klára skóla til þess að eitthvað verði úr þér. Mér gengur ekkert vel í skóla með svona mikinn kvíða. Ég vildi svo óska þess að ég væri búinn með skólann og helst búinn að klára rafbraut í FB. Ég var í Noregi um tíma að hjálpa frænda mínum sem er rafvirki og þetta lúkkaði sem mjög kósí vinna, að skrúfa dósir á vegg og draga víra í gegnum rör.“

Sturla Snær Kærnested
Afgreiðslumaður á pítseríu

Deila