Efling stéttarfélag

„Ég stofnaði veitingastaðinn Kínahofið sem ég rak í 22 ár“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Þetta er fyrsti virki dagurinn eftir hátíðarnar og frekar rólegt hjá okkur í byrjun dagsins, fólk er varla vaknað og í dag er spáð rigningu sem þýðir líka að allt er rólegra, alltaf mest að gera þegar það er frost og þurrt, þá er allt brjálað. Ég hef verið hérna í bílaþvottinum hjá Löðri í fjögur ár, einn dag í einu, eins og ég svaraði um daginn þegar ég var spurður hvort að ég liti á bílaþvottastarfið sem framtíðarstarf. En þetta er góður vinnustaður, þau skaffa allt, fatnað og grímur, góðir yfirmenn enda færi ég annað ef ég væri ekki ánægður.

Vaktarkerfið hentar mér vel, 11 stunda vaktir, ég vinn þrjá daga og frí tvo daga, ef vaktirnar rúlla inn í helgi fæ ég yfirvinnutímana mína sem ég þarfnast og svo er líka gott að eiga frí stundum í miðri viku og sinna eigin erindum. Mörgum finnst þetta vera erfið vinna en mér finnst það ekki sjálfum. Það eru þessi efni eins og tjöruleysiefnið sem fólki geðjast ekki að, en hann er bara notaður á veturna, þrjá mánuði og ég er hættur að taka eftir lyktinni, kannski er ég orðin samdauna lyktinni. Allar vinnur eru þannig að það er alltaf einhver áhætta. Ég hef val um að nota grímu en mér finnst þær frekar óþægilegar þar sem ég svitna undan þeim, það er ekki hægt að pína fólk til þess að nota þær.

Ég stofnaði og rak veitingastaðinn Kínahofið í Kópavogi í 22 ár. Það var mikil vinna, ég þurfti að vinna meira en starfsfólkið ef þetta átti að ganga upp og ég vann alla daga. Fyrir veitingastað er mikilvægt að eigandinn sé alltaf á staðnum og kynnist gestunum og þörfum þeirra. Heildsalanum fannst merkilegt að staðurinn hafði alltaf sömu kennitöluna en veitingahúsageirinn er þungur og margir staðir verða ekki eldri en þriggja ára.

Ég vildi byggja upp staðinn minn hægt og bítandi og fyrstu þrjú árin hélt ég gömlu vinnunni hjá Sjóklæðagerðinni til þess að hafa einhverjar öruggar tekjur, eftir vinnuna í verksmiðjunni tók vinnan á veitingastaðnum við.

Eftir hrun duttu viðskiptin niður en ég hélt áfram í tvö ár áður en ég seldi árið 2010. Það var ekki bara út af samdrætti heldur voru það líka persónulegar ástæður, ég var alltaf með áhyggjur, hugurinn tók sér aldrei hvíld, hann var alltaf vinnandi, líka í svefni var hugurinn að leysa málin á veitingastaðnum. Ég seldi og tók mér þriggja mánaða frí og fór til Víetnam.

Þegar ég kom aftur til Íslands réð ég mig í vinnu í þvottahúsi og vann þar í þrjú ár. Verkstjórinn í þvottahúsinu var frá Víetnam en eigandinn Íslenskur. Verkstjórinn hélt utan um starfsfólkið og réð aðallega fólk frá Víetnam til vinnu sem talaði litla eða enga íslensku. Mín skoðun er sú að fólk sem talar ekki tungumálið leggur meira á sig í vinnu af því að það er óttaslegið. Þeir fáu Íslendingar sem komu í þvottahúsið stoppuðu stutt við og dvöldu þar aðeins í nokkra mánuði.

Ég var ekki sáttur við verkstjórann og eigandann. Við fórum að rífast, og ég reiddist og mér var sagt upp. Ástæðan var sú að konan mín vann líka í þvottahúsinu en hún hafði augastað á annarri vinnu sem hentaði henni betur. Við sögðum frá þessum möguleika og að hún myndi segja upp með löglegum uppsagnarfresti ef til hún fengi hina vinnuna. Verkstjórinn brást illa við og sagði henni upp á staðnum.

Ég var reiður út af þessu sem ég taldi vera ólöglegt og líka vegna framkomu þeirra við starfsfólkið yfirleitt í þvottahúsinu. Þarna var kannski starfsmaður sem þurfti að vitja veikum eða dauðvona ættingja heima í Víetnam og þurfti að fara heim, en honum var neitað og hótað að hann skyldi missa vinnuna ef hann færi.

Ég var að reyna að koma eigandanum og verkstjóranum í skilning um að við værum á Íslandi og svona kæmi maður ekki fram við starfsfólkið sitt. Þeim hugnaðist ekki að ég væri að fetta fingur út í framkomu þeirra og mér var sagt upp. Ég fékk mína þrjá mánuði borgaða af því ég hafði verið hjá þeim í þrjú ár og konan mín fékk einn mánuð en hún var búin að vinna styttra.

Þarna voru Víetnamar sem töluðu enga íslensku og voru hræddir um að missa vinnuna og þekktu ekki réttindin sín. Stéttarfélögin eiga að fara inn á þessa vinnustaði og ræða við starfsfólkið. Hvað átt þú gera, nýkomin til landsins, mállaus, veist ekkert um réttindi þín, veikindadaga eða atvinnuleysisbætur. Þú getur ekki sagt upp ef þér mislíka starfið af því þú þekkir engan og veist ekkert hvert þú átt að leita?“

Teitur Minh Phuoc Du
Bílaþvottamaður hjá Löðri

Deila