Efling stéttarfélag

„Unga fólkið tollir illa í verkamannavinnu“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hef verið hérna á hjúkrunarheimilinu meir og minna síðan 2006. Þar á undan bjó ég 30 ár í Eyjum, þar ól ég upp börnin mín og vann í frystihúsinu einsog allir gerðu í sveitinni sem ekki voru menntaðir.

Ég flutti yfir á meginlandið fyrir tólf árum og skipti um starfsvettvang. Munurinn á þessum störfum er annars vegar að í frystihúsinu eru allir í sínum heim með útvarpið á hausunum, en hérna er ég stöðugt í samskiptum við fólk í vinnunni, sem var alveg nýtt fyrir mér.

Ég var samt búin að vera hérna í fjögur ár þegar ég í fríinu mínu fór á loðnuvertíð eins og vertíðarstelpa að rifja upp gamla takta og hitta gömlu vinnufélagana. Ég datt inn í sama rúntinn, lítið hafði breyst, en þannig er það út á landi, fólk tollir í sömu vinnunni, af því að það er ekki svo mikið í boði. Þetta eru miðaldra og eldri konur sem starfa í frystihúsinu og ég get gengið inn á kaffistofuna og ég þekkti enn þá helminginn, samt eru 12 ár síðan að ég flutti frá Eyjum. Unga fólkið tollir illa í verkamannavinnu núna reyna allir að fara í skóla.

Í frystihúsinu voru þetta langar vaktir 12 tímar í senn allt árið og varla slitnaði á milli, þannig að það var mikið upp úr því að hafa, en ég myndi ekki vilja skipta núna, átta til fjögur er góður vinnutími og hentar mér vel.

Ég er verkstjóri yfir ræstingum í húsinu, sex býtibúr sem ég fylgist með og svo sé ég um að halda öllu hreinu í húsinu. Ég leysi rekstrarstjórann af, hún er kölluð “Mamma Casa”, þegar hún fer í frí og þá þarf ég að vera í öllu sem skemmtilegt, allt frá því að kaupa jólaseríu og fara með blóðprufu og allt þar á milli.

Við erum með frábært fólk hérna frá Filippseyjum, Thailandi og Póllandi, ótrúlega dugleg fólk, og stundum spyr ég: „Hvaða vítamín eruð þið að taka inn?“ en það eru margir sem vinna hérna sem fara héðan í aðra vinnu. Ein af þeim man hvað hver einasti af okkar 90 heimilismönnum þarf að borða, nóg að nefna herbergisnúmerið, þá veit hún hvað sá eða sú má og hvað ekki borða.

Hérna er góður andi, maður sér unga fólkið sem tekur að sér stubbavaktirnar seinni partinn kannski með skóla, halda áfram og fara í aðhlynninguna eða jafnvel í nám í sjúkraliðann og jafnvel læknar. Það hafa örugglega allir rosalega gott að því að hugsa um annað fólk einhvern tímann á lífsleiðinni. En mig hefur ekki langað til þess, ekki ennþá, en ég er alltaf að komast nær því og að sjá að það væri mögulegt fyrir mig.

Ég bjó hérna í Rauðalæk og hjólaði í vinnuna sem var mjög þægilegt. En ég braust úr úr þægindarammanum og seldi kjallaraíbúðina og keypti mér litla ferðaþjónustu við Akranes sem ég sinni núna eftir vinnu. Ég fékk mér landnámshænur, 11 varphænur og einn hana og get haft 18 manns í gistingu. Ég flutti í janúar og keyri á milli og hlusta á sögu, þetta er mín stund í 40 mínútur og stundum vildi ég að ferðin tæki lengri tíma af því að ég er orðin svo spennt í sögunni. Ég er búin að hlusta á allar jólabækurnar.

Maðurinn minn er með mér í ferðaþjónustunni, en hann vinnur líka inn á Akranesi. Barnabörnin eru mjög ánægð með þetta og það verður gott að hafa eitthvað að dunda við í ellinni.“

Þórlaug Steingrímsdóttir
Ræstingastjóri

Deila