Efling stéttarfélag

„Ef ég er ekki að vinna þá finnst mér eins og heimurinn sé að farast“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hef unnið á vinnuvélum í ellefu ár, í Litháen, Þýskalandi og síðastliðin tvö ár á Íslandi. Hingað kom ég í gegnum starfsmannaleigu, borgaði hálfa milljón, og í staðin útvega þeir mér vinnu og húsnæði.

Ég er reyndar sáttur yfir því að hafa fengið vinnu og húsnæði strax við komuna til landsins, þótt húsnæðið hafi verið misjafnt í byrjun og aldrei neinn leigusamningur. Ég flutti á milli þriggja staða og deildi húsnæði með öðrum verkamönnum og borgaði alveg nóg. Þriðja húsnæðið var góð íbúð, allt nýtt og þar bjó ég í átta mánuði ásamt öðrum manni og þá gat ég fengið konuna mína til að koma loksins til mín og við bjuggum þar saman í smá tíma eða þangað til að Remax keypti íbúðina. En það varð til þess að við fórum sjálf og fundum íbúð í Kópavogi milliliðalaust. Heima í Litháen var konan mín afgreiðslukona í búð en hérna starfar hún við ræstingar og er með hærra kaup. Mér finnst ástandið hérna vera mjög gott í samanburði við Litháen og ég er að semja við konuna mína um að vera á Íslandi allavega í fimm ár í viðbót. Ég er jafnvel að spá í að kaupa húsnæði á Íslandi. Atvinnumarkaðurinn í Litháen er mjög óöruggur. Þú ert með vinnu einn daginn og enga vinnu næsta dag og launin eru allt of lág. Til Litháen koma margir farandverkamenn frá Úkraínu sem eru með veikari launakröfur en innfæddir og stundum tilbúnir að vinna fyrir lægra kaup.

Ég vinn eins mikið og ég kemst yfir, sex daga vikunnar, og ef ég er ekki að vinna þá finnst mér eins og heimurinn sé að farast. Ísland er fallegt land og ef ég og konan mín eigum frí eða langa helgi þá förum við upp í sveit að skoða fjöll og fossa. Verst finnst mér að það er engin skógur á Íslandi, það er eina vandamálið hérna.“

Vidmantas Cepauskas
Vinnuvélamaður

Deila