Efling stéttarfélag

„Ég verð svo hrygg þegar gamla fólkið verður reitt út mig“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Mamma flutti hingað þegar hún giftist stjúpa mínum, það má segja að hún hafi verið fyrsti landneminn úr okkar fjölskyldu, við eru nokkur sem komum í kjölfarið. Þau mamma og stjúpi minn gerðu mér kleyft að koma til Íslands með strákana tvo sem voru þá þrettán og fimmtán ára, en eldri strákarnir urðu eftir heima. Ég á fjóra stráka en pabbi þeirra er dáinn. Síðar tók ég saman við æskuvin minn og bróður míns og við búum saman hérna á Íslandi og höfum gert í 20 ár.

Það var ekki auðvelt fyrir strákana mína tvo að flytja til íslands og skilja eftir vini sína og læra nýtt tungumál, þeir voru þegar orðnir unglingar, á viðkvæmum aldri. Hérna hættu þeir í námi eftir grunnskóla og fóru báðir að vinna í fisk og hafa gert síðan. Eldri strákarnir mínir sem urðu eftir eru báðir sölumenn, annar í Dubai og hinn í verslunarmiðstöð á Filippseyjum.

Stórfjölskyldan kemur saman um jól og áramót og svo auðvitað í kringum jarðarfarirnar. Það er svo dýrt að fara heim, síðast þegar við vorum öll saman var fyrir sex árum, þá fóru strákarnir með mér héðan til Filippseyja og við hittum bræður þeirra niður frá.

Filippseyingar eru mikið jólafólk, við höldum upp á jólin í fjóra mánuði. Á Filippseyjum er byrjað að jólast strax í september, sérkennileg blanda, þrátt fyrir erfitt líf almennt á Filippseyjum þá er fólk voða mikið að skemmta sér og koma saman. Við byrjum strax í september að skreyta og syngja jólalögin, Jingle Bell í bland við filippísk jólalög. En ég held þessu ekki við á Íslandi, ég hef aðlagað mig hefðunum hérna en ég er samt með smá bland, einsog hangikjöt og sætar hrísgrjónakökur á jólaborðinu mínu. Menningin á Filippseyjum er blanda við allskonar hefðir frá fyrrum tímabilum þegar við vorum undir Spánverjum, Bandaríkjamönnum og líka Japönum og útfærslan er svo eitthvað filippískt.

Ég vann hjá Toppfisk í 15 ár, ég fékk minna borgað þar en í heimaþjónustunni. Ég fékk 10 þúsund króna hækkun á 15 árum, ég fékk í kringum 180 þúsund greitt fyrir fjörtíu tíma vinnuviku og náði kannski 200 þúsund ef það var yfirvinna.

Hérna í heimaþjónustunni byrjaði ég fyrir tveim árum, ég baða gamla fólkið og þríf íbúðirnar og stundum aðstoða ég í eldhúsinu. Öll launin mín fara í að borga leiguna okkar, fyrir mig og manninn minn og son hans sem býr hjá okkur. Ég tel mig heppna afþví íbúðin er rúmgóð og það eru margir sem borga meira, ég vona bara að leigan hækki ekki á næsta ári. Ég borga 240 þúsund í leigu að meðaltali, launin mín eru 230 þúsund eftir skatt, fyrir fimm daga vinnuviku, átta tíma á dag.

Ég hef ekki náð tökum á íslensku og ég verð svo hrygg þegar gamla fólkið verður reitt út í mig þegar ég skil ekki hvað þau eru að segja, þá hringi ég í frænku mína sem vinnur með mér og hún kemur og þýðir fyrir mig og það bjargast vanalega. Það eru annars bara nokkrir sem eru pirraðir út í mig, flestir sem búa hérna eru vinalegir.

Vinnan er auðvitað ástæðan fyrir því að ég bý á Íslandi, vinna er ekki á lausu á Filippseyjum. Mér líður vel hérna af því fjölskyldan mín er í kringum mig, mamma og stjúpi, börnin og barnabörnin. Barnabörnin fjögur sem eru fædd hérna eru orðin íslensk, þeim finnst bæði verðurfarið og tungumálið erfitt á Filippseyjum. Þegar þau voru lítil þá blönduðu þau öllum tungumálunum saman, íslensku, ensku og kapanga sem er tungumálið okkar í Luzon á Filipseyjum, við héldum á tímabili að þetta myndi valda þeim erfiðleikum, en það hefur blessast. Þau tala annaðhvort ensku eða íslensku við mig, og ég svara á ensku, og það þýðir lítið fyrir mig að tala við þau á Kapanga.“

Yolanda Hibionada
Heimaþjónusta fyrir aldraða

Deila