Efling stéttarfélag

„Ef þú ert svöng þá sérðu engan tilgang með því að fara í skóla“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég hitti manninn minn í Kenýa og úr varð að ég kom hingað til Hveragerðis, að kanna norðrið og við fórum að búa og giftum okkur. Heima í Nairobi vann ég hjá skattinum. En íslenskan mín er enn þá svo takmörkuð að ræstingar er eina vinnan sem ég fæ hérna í bili. Ég var alls ekki viss um að ég gæti unnið við ræstingar í upphafi, en einhvers staðar verður maður að byrja.

Yfirmaðurinn er góður að því leyti að hann gerir ekki upp á milli okkar sem hér starfa, en ég er eini afríkaninn á hótelinu. Starfsfólkið á hótelinu er frá Rússlandi, Póllandi, Litháen, Sri Lanka og Spáni. Mér finnst spennandi að kynnast þeim og ég læri eitthvað um fólk frá öllum heiminum. Þau frá Sri Lanka elda svo góðan mat, kokkurinn er frá Sri Lanka og þær frá Litháen eru svo fljótar að þrífa, ég skil ekki hvernig þær fara að þessu. Þær klára sinn hluta á ótrúlega stuttum tíma og fara svo að reykja. Ef ég væri að reykja í þorpinu mínu, þá myndi allt þorpið tala um það. Konur reykja ekki heima í Kenýa en mér finnst það ekki koma neinum við, það mega allir reykja fyrir mér. Spánverjinn sem vinnur með mér er á kafi í fótbolta og er alltaf að tala við mig um fótbolta sem ég veit auðvitað ekkert um en ég reyni að fylgjast með og setja mig inn í fótboltamálin.

Kenýa er stéttarlega þrjú aðskilin lönd, rosalega ríkt fólk, millistétt og svo fátækt fólk sem enginn er að hjálpa. Það er ekkert gert fyrir fátækt fólk í Kenýa, það verður bara að redda sér. Börn sem fæðast á götunni verða þar áfram og betla. Það eru ókeypis skólar en ef þú átt ekki mat og ert alltaf svöng þá sérðu engan tilgang með því að fara í skóla. Ef ég væri ein á Íslandi þá myndi ég líklega ekki lifa á kaupinu mínu, hérna er allt svo dýrt og ef ég þyrfti að leigja ein þá myndi ég ekki borða allan mánuðinn. En ég gæti lifað góðu lífi á kaupinu í Kenýa.“

Yuridise Kendi Nyaga
Herbergisþerna

Deila