Efling stéttarfélag

„Hérna tala portúgalarnir meir að segja pólsku“

Ágústa Kolbrún Guðrúnardóttir

„Ég missti manninn minn fyrir fjórtán árum og var ein með þrjú börn og þurfti ég að sjá fyrir þeim ein. Ég var afgreiðslukona þegar vinkona mín útvegaði mér vinnu í átta mánuði í Connecticut í Bandaríkjunum hjá aldraðri konu. Það var yndisleg vinna og yndisleg 88 ára gömul kona. Mitt starf var að aðstoða hana við að þvo sér, borða og klæða. Þetta var svo róleg kona og hafði svo róandi áhrif á mig. Við fórum í langa göngutúra saman og þessa ensku sem ég kann lærði ég af henni. Ég kunni ekki ensku þegar ég fór út, ég lærði bara rússnesku í grunnskólanum heima í Póllandi. Ég kom til baka heim til Póllands á 45 ára afmælisdeginum mínum og krakkarnir mínir höfðu bakað handa mér afmælisköku,

Ég kom til Íslands árið 2011 og byrjaði strax að vinna hjá Sjávarfangi að verka fisk og hef verið hér síðan. Ég mæti oftast klukkan sjö á morgnanna en stundum sex, og stundum fjögur, það fer eftir því hvað er verið að panta mikið í flug sem fer klukkan átta. Fiskurinn flýgur út um allan heim, líka til Póllands. Þetta er stórt fyrirtæki og 80-90 prósent starfsfólksins er pólskt.

Hérna á vinnustaðnum tala allir pólsku, meira að segja glymja pólsk dægurlög úr hátalaranum í vinnslusalnum. Það eru nokkrir starfsmenn hérna frá Litháen og Portúgal og þau tala pólsku sín á milli.

Börnin mín þrjú eru öll flutt til Íslands, dóttir mín er búin að kaupa íbúð og hin ætlar að kaupa íbúð á næsta ári. Sjálf er ég að hugsa um að kaupa íbúð hérna þegar ég hef selt mína í Póllandi. Við leigjum stóra íbúð í Kringlunni og erum fjögur í heimili, ég, dóttir mín, sonur og tengdasonur og borgum 270 þúsund fyrir hana. Leigan hérna er hrikalega há.

Veðráttan á Íslandi hentar mér vel, mér finnst allt of heitt í Póllandi og núna hafa krakkarnir mínir fest rætur á Íslandi og ekki fer ég að fara ein aftur til Póllands. Ég á vini hérna og vinkonur, Ela sem vinnur hérna er vinkona mín og við förum saman í bíó og Kringluna og stundum í Cafe Catalina, það er svona skemmtistaður fyrir eldra fólk, þá klæðum við okkur upp og gerum okkur fínar og förum út að dansa.“

Zofia Brodziak
Fiskverkunarkona

Deila